Í tilefni af degi íslenskrar tungu 16. nóvember efnir Menntamálastofnun til vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2017. Þetta er sjöunda árið í röð sem keppnin er haldin og annað árið í samstarfi við KrakkaRúv.
Kveðskaparlist er merkilegur þjóðararfur sem vert er að halda á lofti og hvetja nemendur til að stunda. Í keppninni spreyta nemendur sig á því að botna fyrriparta eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson. Um er að ræða tvo fyrriparta fyrir hvern aldursflokk á yngsta-, mið- og unglingastigi. Fyrir besta vísubotninn á hverju stigi verða veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjöl. Vonast er til að sem flestir skólar taki þátt í þessu verkefni. Hér má lesa um úrslit keppninnar í fyrra.
Hér fyrir neðan má smella á verkefni fyrir hvert stig. Nemendur á mið- og unglingastigi þurfa að huga vel að ljóðstöfum og rími en ætlast er til að nemendur á yngsta stigi einbeiti sér fyrst og fremst að ríminu. Ragnar Ingi Aðalsteinsson hefur tekið saman stuttar og hnitmiðaðar bragfræðileiðbeiningar til kennara og einnig bendum við á bók hans Bragfræði fyrir unglingastig grunnskóla.
Skilafrestur er til 8. desember 2017
Hægt er að senda vísurnar rafrænt á netfangið [email protected] eða með bréfpósti:
Menntamálastofnun
Vísubotn 2017
B.t. Elínar Lilju Jónasdóttur
Víkurhvarfi 3
203 Kópavogi
Einnig er hægt að taka þátt á síðu KrakkaRúv.
Á safnvef Menntamálastofnunar, dagur íslenskrar tungu, er fjöldi áhugaverðra verkefna sem nota má í tilefni dagsins. Þar má einnig nálgast efni vísnasamkeppninnar undir hnappnum Vísur og limrur. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hvetur nemendur og kennara til að vinna saman að gerð örmyndbanda þar sem leitað verði svara við tveimur spurningum: Af hverju er íslenskan mikilvæg fyrir þig? Af hverju ert þú mikilvæg/-ur fyrir íslenskuna? Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis er einnig fjölbreyttur hugmyndabanki sem kennarar geta nýtt sér og upplýsingar um dagskrá og viðburði víða um land. Þá er einnig vert að benda á Fabebook-síðu dags íslenskrar tungu en þar er fjallað um viðburði og annað er deginum viðkemur.