Hverjir eru í fagráðinu?

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar í fagráðið til þriggja ára í senn. Núverandi skipunartímabil er 13.02.2018 - 12.02.2021.

Í fagráðinu eru:

Aðalmenn:
Bóas Valdórsson, formaður. 
Sigríður Lára Haraldsdóttir,
Sigrún Garcia Thorarensen, varaformaður

Varamenn:
Björg Jónsdóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Selma Barðdal Reynisdóttir

 

Bóas Valdórsson

Bóas er menntaður sálfræðingur með cand.psych próf frá Háskólanum í Árósum auk þess að vera sérfræðingur í klínískri barnasálfræði. Bóas hefur starfað á barna- og unglingageðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss (BUGL) og sem sérfræðingur í málefnum barna hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við sáttameðferð og ráðgjöf. Bóas starfar í dag sem skólasálfræðingur í grunn- og framhaldsskóla.

Sigríður Lára Haraldsdóttir

Sigríður Lára er menntaður grunnskólakennari, náms- og starfsráðgjafi og fjölskyldufræðingur. Hún er einnig lærður PMTO meðferðaraðili og jógakennari. Sigríður Lára kenndi á yngsta- og miðstigi grunnskóla og hefur sinnt náms- og starfsráðgjöf í framhaldsskóla og grunnskóla. Sigríður Lára var  verkefnastjóri og ráðgjafi hjá Samskiptasetri Erindis, þar sem hún vann með samskiptavanda, eineltismál og líðan barna og ungmenna í skólum og tómstundum, ásamt því að sinna fjölskyldumeðferð. Þar að auki var Sigríður Lára deildarstjóri á skammtímaheimili fyrir unglinga á vegum Barnaverndar Reykjavíkur þar sem unnið var með ungmenni og fjölskyldur þeirra.

Sigrún Thorarensen

Sigrún er með meistarapróf í náms- og starfsráðgjöf og með kennararéttindi á grunn- og framhaldsskólastigi. Sigrún hefur unnið í grunnskóla í 12 ár og verið verkefnastjóri Olweusaráætlunar skólans í 10 ár. Sigrún var fulltrúi skólans í Vinsamlegt samfélag, verkefni á vegum Reykjavíkurborgar þar sem rýnt var í viðbrögð og vinnuáætlanir í eineltismálum og vinnubrögð leik-, grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva voru samræmd. Hún hefur setið í eineltisteymi í grunnskóla í 12 ár og því tekið á ótal málum. Sigrún hefur sótt mikið af námskeiðum og fræðslufundum er varða eineltismál. MA ritgerð Sigrúnar í náms- og starfsráðgjöf var um Stuðning og hindranir við Olweusaráætlunina og í henni skoðaði hún fleiri eineltisáætlanir.

Auk þessa hefur Sigrún verið hinum megin borðsins en eldri sonur hennar var lagður í mikið einelti í tæp 5 ár þannig að hún hefur persónulega reynslu af því hvernig aðstandendum líður og því bjargarleysi sem foreldrar upplifa.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir

Guðrún Ebba hefur kennt lífsleikni auk annarra námsgreina við Laugarlækjarskóla frá haustinu 2006. Þar hefur hún þróað námskrá í lífsleikni þar sem megináherslan er á samskiptahæfni nemenda og félagslegar forvarnir. Samhliða kennslunni hefur hún nær allan tímann setið í samskiptateymi skólans, áður eineltisteymi, og hefur þannig komið að flestum málum sem varða samskiptavanda eða eineltismál sem upp hafa komið á tímabilinu. Guðrún Ebba útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1980 og lauk diplómanámi í starfstengdri leiðsögn vorið 2015. Guðrún Ebba var um árabil í forystu Kennarasambands Íslands, m.a. sem varaformaður en einnig fyrsti formaður Félags grunnskólakennara. Hún sat í borgarstjórn Reykjavíkur sem kjörinn fulltrúi 2002-2006 og sat m.a. í borgar-, velferðar- og fræðsluráði borgarinnar auk einnar áfrýjunarnefndar. Guðrún Ebba stýrði vinnu um heildarendurskoðun laga um grunnskóla sem tóku gildi 2008. Haustið 2011 kom út saga hennar, Ekki líta undan. Guðrún Ebba sat lengi í stjórn Blátt áfram. Hún stofnaði ásamt fleiri konum Drekaslóð og Rótina. Hún situr í ráði Rótarinnar og er ásamt Katrínu Alfreðsdóttur, félagsráðgjafa og fjölskyldufræðingi, leiðbeinandi á námskeiðinu Konur studdar til bata.

Björg Jónsdóttir

Björg er með MA gráðu í uppeldis- og menntunarfræði: áhættuhegðun og forvarnir og með B.ed. í grunnskólakennarafræðum. Hún hefur starfað við uppeldis- og menntamál frá því hún útskrifaðist sem kennari. Menntamál eru hennar helsta áhugamál og auk þess að kenna undanfarin ár hefur hún samið námsefni og starfað í fagfélagi á því sviði og  veitt kennsluráðgjöf undanfarin ár í tengslum við námsefnisgerðina. Frá 2015 hefur hún starfað fyrir samtökin Erindi sem vinna að bættri líðan barna með ráðgjöf, fræðslu og annarri þjónustu en hún var einn af stofnendum samtakanna. Hún hefur mikla reynslu af vinnslu eineltismála vegna vinnu sinnar fyrir Erindi.

Selma Barðdal

Selma Barðdal er menntaður grunnskólakennari. Hún er með kandídatspróf í uppeldis- og sálfræðiráðgjöf og diplóma í opinberri stjórnsýslu. Selma er einnig lærður PMTO meðferðaraðili. Selma kenndi á yngsta stigi og unglingastigi í grunnskóla í nokkur ár. Hún starfaði sem uppeldis- og sálfræðiráðgjafi við leik- og grunnskóla í Skagafirði þar sem hún sinnti ráðgjöf og fræðslu til starfsmanna, barna og foreldra ásamt því að sinna PMT meðferð. Selma starfaði jafnframt sem verkefnisstjóri Vinaverkefnis í Skagafirði og vann að innleiðingu Vinaliðaverkefnis. Selma hefur starfað sem skólafulltrúi og síðar sem fræðslustjóri í Skagafirði.