Hverjir geta leitað til fagráðsins?

Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum veitir ráðgjöf og tekur á málum sem varða nemendur í grunnskólum og framhaldsskólum (fagráð tekur ekki á málum sem varða einelti og erfið samskipti á milli starfsfólks grunn- og framhaldsskóla).  

Grunnskólinn: Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 geta aðilar skólasamfélagsins (foreldrar og forráðamenn nemanda, nemandi, starfsfólk skóla, stjórnendur skóla), auk annarra aðila sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi sem hefur stoð í grunnskólalögum, óskað eftir aðkomu fagráðs ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn, innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir aðkomu starfsfólks skóla og skólaþjónustu sveitarfélaga. Sömu aðilar geta jafnframt vísað máli til fagráðs vegna meints aðgerðaleysis skóla eða sveitarfélags. Átt er við alla starfsemi á vegum grunnskóla, m.a. starfsemi frístundaheimila fyrir nemendur í yngri árgöngum grunnskóla óháð rekstrarformi, félags- og tómstundastarf sem fram fer sem hluti af starfsemi grunnskóla, starfsemi skólabúða þar sem nemendur dvelja um stundarsakir og vettvangsferðir og skólaferðalög á vegum skólans eða foreldra.

Framhaldsskólinn: Samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 326/2016 geta foreldrar/forráðamenn, nemendur eða skólar óskað eftir aðkomu fagráðs ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.