1. Forsíða
  2. Inngangur

Inngangur

Efnisyfirlit

Samkvæmt grunnskólalögum nr. 91/2008 og reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla nr. 173/2017, skal leggja samræmd könnunarpróf fyrir 4. og 7. bekk og á unglingastigi ár hvert. Meginhlutverk samræmdra könnunarprófa er að veita nemendum, foreldrum og skólum upplýsingar um námsstöðu.

Lögð er áhersla á að tilgangur samræmdra könnunarprófa er að veita nemendum endurgjöf og bæta nám þeirra. Nemendur eru hvattir til að reyna sitt besta en mikilvægt er að hlúa vel að líðan og velferð þeirra. 

Niðurstöður prófa skulu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt. Menntamálastofnun skal nýta niðurstöður prófa til að stuðla að umbótum og þróun í skóla­starfi.

Nákvæmar útfærslur á reglum við framkvæmd prófanna eru í höndum Menntamálastofnunar. Öll frávik frá almennum reglum um fyrirlögn prófanna eru óheimil nema í samráði við stofnunina.

Tilgangur reglna um framkvæmd samræmdra könnunarprófa er meðal annars sá að stuðla að því að prófin séu þreytt með sambærilegum hætti í öllum skólum. Jafnframt felast í þeim mikilvæg skilaboð til nemenda sem skapa þeim ákveðið öryggi og auðvelda þeim próftökuna. Þá eru þar upplýsingar fyrir skóla til að undirbúa fyrirlögn. 

Séu einhver atriði óljós í leiðbeiningum um framkvæmd samræmdra könnunarprófa er mikilvægt að bera upp spurningar hið fyrsta við starfsmenn Menntamálastofnunar. Með því er hægt að skerpa á óljósum atriðum og bæta inn efnisatriðum í leiðbeiningarnar ef þurfa þykir. Jafnframt er bent á að hafa samband við stofnunina alla virka daga um hvaðeina er snýr að fyrirlögn könnunarprófanna, í síma 514-7500 eða með því að senda tölvupóst á [email protected]

Hér fyrir neðan eru upplýsingar úr reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla nr. 173/2017. Samkvæmt henni er tilgangur samræmdra könnunarprófa í grunnskólum að:

 

a)

athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í við­kom­andi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,

 

b)

vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda,

 

c)

veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,

 

d)

veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar og skólakerfið í heild stendur í þeim náms­greinum og námsþáttum sem prófað er úr.

Næsti kafli>>

Efnisyfirlit