1. Forsíða
 2. Skólastig
 3. Framhaldsfræðsla
 4. Leiðbeiningar um gerð umsókna vegna viðurkenningar fræðsluaðila

Leiðbeiningar um gerð umsókna vegna viðurkenningar fræðsluaðila

Samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 skal mennta- og menningarmálaráðherra, eða aðili sem hann felur það verkefni, veita fræðsluaðilum viðurkenningu til þess að annast framhaldsfræðslu. Í slíkri viðurkenningu felst staðfesting á því að starfsemi fræðsluaðila uppfylli almenn skilyrði laganna og reglna sem settar eru með stoð í þeim.

Leiðbeiningar

Eftirfarandi leiðbeiningar lýsa þeim upplýsingum sem fræðsluaðilar þurfa að veita til að geta hlotið viðurkenningu ráðuneytisins til að annast framhaldsfræðslu skv. ákvæðum laga nr. 27/2010 og reglugerðar nr. 1163/2011. Við afgreiðslu umsókna er gengið úr skugga um að starfsemi viðkomandi fræðsluaðila uppfylli einstaka þætti krafnanna. Umsækjendur geta haft leiðbeiningarnar til hliðsjónar við samningu umsóknar. 

Viðurkenning er veitt á grundvelli umsóknar sem Menntamálastofnun berst frá eiganda eða stjórn fræðsluaðila. Með umsókn skal leggja fram eftirfarandi gögn eða upplýsingar:

 1. Nafn og kennitölu umsækjanda sem skal vera að forminu til sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða starfa samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Viðurkenning er gefin út á nafn og kennitölu umsækjanda.
 2. Lýsing á meginmarkmiðum í starfsemi umsækjanda sem verður að uppfylla ákvæði 2. gr. laga nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu og skilyrði laganna um skipulag náms og kennslu, aðstöðu og rekstur. Þetta felur m.a. í sér lýsingu á helstu áherslum í fræðslustarfsemi umsækjanda, námskrám og skipulagi náms, námsframboði og skilgreindum námslokum, náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimati o.fl. Enn fremur sérstöðu eða sérkennum starfseminnar og áætlaðri þörf fyrir hana svo og hvaða markhópi starfseminni er einkum ætlað að þjóna.
 3. Lýsing á fyrirkomulagi kennslu, kennsluaðferðum og námsmati (t.d. staðbundið nám, fjarnám, verklegt nám) sem beitt er hjá fræðsluaðilanum.
 4. Lýsing á aðstöðu, þ.e. húsnæði fræðsluaðila og búnaði, ásamt vottorðum frá yfirvöldum heilbrigðis- og brunamála og lýsingu á aðgengi fatlaðra eða annarri sérhæfðri aðstöðu sem starfsemin kann að krefjast.
 5. Lýsing á stjórnun, m.a. skipurit, kjörin stjórn, stjórn daglegrar starfsemi, fagstjórn, fjármálastjórn o.þ.h.
 6. Upplýsingar um menntun og reynslu stjórnenda.
 7. Upplýsingar um kröfur til þeirra sem annast kennslu og ráðgjöf, þ.e. menntun þeirra og starfsreynslu.
 8. Staðfesting á því hvernig fjárhagslegri ábyrgð er háttað, hvernig fræðsluaðili fjármagnar starfsemi sína og hvernig fjárhagslegt rekstraröryggi starfseminnar er tryggt. Skrifleg trygging fyrir því að nemendur geti lokið námi sínu. Heimilt er að krefjast bankatryggingar af fræðsluaðila til að fullnægja þessu skilyrði.
 9. Með umsókn skal liggja fyrir yfirlýsing eigenda/stjórnar um að þeir/hún veiti Menntamálastofnun upplýsingar um starfsemi fræðsluaðila á hverjum tíma.
 10. Lýsing á innra gæðakerfi og sjálfsmati fræðsluaðila og að það fullnægi skilyrðum IV. kafla laga um framhaldsfræðslu um mat og eftirlit með gæðum.
 11. Lýsing á námslokum, hvaða viðurkenningu, réttindi eða prófheiti nemendur fá að námi loknu. Á hvaða hæfniþrepi námslokin eru staðsett og hvers konar staðfestingu (skírteini) nemendur fá að loknu námi.
 12. Lýsing á nemendabókhaldi, hvernig skráningu og upplýsingum um nám og námsferill nemenda er háttað. Enn fremur hvernig fræðsluaðili mun tryggja nemendum aðgang að upplýsingum um námsferil eftir að námi lýkur.
 13. Upplýsingar um hvernig réttindi og skyldur nemenda eru skilgreind og að réttur þeirra sé tryggður í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Lýsing á meðferð ágreiningsmála hjá fræðsluaðila, leiðum sem nemendur og starfsmenn hafa til að leita réttar síns telji þeir á sér broti.. 

 

Menntamálastofnun 23. nóvember 2015 aðlagað frá viðmiðum Mennta- og menningarmálaráðuneytis, 20. júní 2012