Það er ekki einfalt að ákveða hvort um einelti sé að ræða þegar samskiptavandi kemur upp. Samskiptavandi birtist á margvíslegan máta og er misalvarlegur. Í mörgum tilfellum geta einstaklingar sjálfir leyst úr málunum og þurfa að fá tækifæri til þess svo samskiptafærni þeirra megi þroskast. Stundum er um misskilning að ræða, stundum verður einstaklingum aðeins of heitt í hamsi eða ákveðinn galsi fer úr böndunum en stundum verður þó til neikvætt mynstur í samskiptum sem einstaklingar geta ekki sjálfir leyst sín á milli og fer að hafa neikvæðar afleiðingar á líðan viðkomandi. Samskiptin geta verið með eða án orða, svo sem að gera lítið úr, móðga, ógna, beita ofbeldi, hunsa, gefa augnaráð eða svip o.fl. Það má segja að einelti sé alvarlegasta stig samskiptavanda; þegar síendurtekin hegðun er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður og reka eða útskúfa viðkomandi úr samfélagi jafningja.
Þegar upp kemur vandi í samskiptum er mikilvægt að orka og athygli fari ekki eingöngu í að skilgreina hversu alvarlegur vandinn er og hvort um einelti sé að ræða eða ekki. Mikilvægast er að finna farsælar leiðir til að takast á við vandann, skoða umhverfið í heild sinni og gefa öllum aðilum máls tækifæri til að axla ábyrgð á hegðun sinni og breyta til hins betra. Því þegar allt kemur til alls þá er vandinn sá sami, hvaða nafni sem við köllum hann.