1. Forsíða
  2. Þjónusta
  3. FS-net
  4. Reglur um FS-net

Reglur um FS-net

I. Almennt um FS-netið

  • Markmið og hlutverk FS-nets   
  • ​Net framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva á Íslandi (FS-net) er stofnað með það að markmiði að efla samskipti á milli skóla og skólastiga. Hlutverk FS-nets er að tengja saman framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar um IP tölvunet og annast grunnþjónustu á sviði tölvusamskipta.

II. Notendur FS-nets

Aðgangur að FS-neti
Stjórn FS-nets veitir aðgang skv. 6. gr. reglna þessara.

  • Framhaldsskólar
    FS-netið er opið öllum samþykktum framhaldsskólum á Íslandi. Til framhaldsskóla í þessu sambandi teljast allar stofnanir sem falla undir skilgreiningu menntamálaráðuneytisins á framhaldsskóla.
  • Símenntunarmiðstöðvar
  • FS-netið er opið öllum samþykktum símenntunarmiðstöðvum á Íslandi. Til símenntunarmiðstöðva teljast í þessu sambandi þær miðstöðvar sem skilgreindar eru af mennta- og barnamálaráðuneytinu.
  • Útibú símenntunarmiðstöðva
    Símenntunarmiðstöðvar geta á hverjum tíma skilgreint aðra starfsstaði sem útibú til lengri eða skemmri tíma.

III. Umsóknir um aðgang

  • Efni umsóknar

Aðili sem óskar eftir aðgangi að FS-neti skal senda umsókn til stjórnar FS-nets á [email protected], þar sem fram komi upplýsingar um eftirfarandi atriði:
a. Kennitala, heiti og heimilisfang umsækjanda.
b. Nafn forstöðumanns stofnunar, fyrirtækis eða félags, sími og netfang.
c. Stutt lýsing á starfsemi / viðfangsefnum umsækjanda.
Umsókn um aðgang skv. 5. gr. skal að auki fylgja:
d. Beiðni símenntunarmiðstöðvar sem ber ábyrgð á útibúi.
e. Lýsing á fyrirhugaðri notkun FS-nets.
f. Aðrar þær upplýsingar sem umsækjandi metur gagnlegar.

  •  Meðferð umsóknar

Stjórn FS-nets afgreiðir umsóknir þegar allar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir. Ákvörðun um aðgang getur verið háð sérstökum skilyrðum sem stjórnin metur nauðsynleg til þess að tryggja að notkun umsækjanda sé í samræmi við markmið FS-nets. Að öðru leyti gilda reglur þessar og skilmálar um notkun netsins.

IV. Tenging við FS-netið.

  • Tengihraði

Tengihraði við FS-netið er á bilinu 2  -1000 Mb/s. Allur kostnaður sem fellur til vegna lagna og tenginga innanhúss, s.s. ljósleiðaralögn frá ljósleiðarainntaki að tengiskáp, skal ávallt greiddur af viðkomandi notkunaraðila.

  •  Kröfur til tengdra aðila

Æskilegt er að tengdur aðili nýti sér RFC 1631(NAT) fyrir almenna umferð út frá sínu tölvuneti. Einnig er æskilegt að fjarfundabúnaður hafi sér IP-tölu og fari þannig beint út á FS-netið. Einnig er mælt með því að hver tengdur aðili komi sér upp miðlægum varnarbúnaði, eldvegg eða ígildi hans og nýti hann m.a. til þess að verja FS-netið fyrir óeðlilegri umferð (t.d. vegna vírusa eða annarra vágesta) sem á uppruna sinn á staðarneti viðkomandi tengds aðila.

Ef sú staða kemur upp á staðarneti viðkomandi tengds aðila að vírus eða önnur ógn hefur brotist út og að miðlægur varnarbúnaður nái ekki að ráða niðurlögum þeirra ógnar skal umsjónamaður staðarnetsins grípa til viðeigandi ráðstafana sem fyrst og skal aftengja viðkomandi staðarnet frá FS-neti ef ekki tekst að komast fyrir fyrrnefnda ógn innan skamms tíma.

Ef ekki næst í viðkomandi umsjónarmann eða að hann getur ekki sinnt því ástandi sem upp er komið hefur þjónustuborð Vodafone fulla heimild til að aftengja viðkomandi staðarnet þar til náðst hefur samband við umsjónarmann eða úrlausn fundin. Ef um slíka aftengingu Vodafone er að ræða skal þjónustuborð senda tilkynningu í tölvupósti og SMS á tengiliði.

Hver tengdur aðili skal sjá til þess að fyrir hendi sé a.m.k. einn nafnaþjónn á eigin neti. Gert er ráð fyrir að tengdur aðili tryggi vara-nafnaþjón með samningum eða eigin vélbúnaði. Hver aðili ákveður sjálfur hvernig og hvenær hann leyfir viðbótarlénsnöfn fyrir tölvur sínar.
Aðila tengdum FS-neti er skilyrðislaust óheimilt að endurselja aðgang að FS-neti til þriðja aðila.
Stjórn FS-nets sker úr um hvort tiltekin notkun á netinu er leyfileg og skal þá haft til hliðsjónar hvað teljast góðir siðir á netinu.

  • Gjöld fyrir tengingu

FS-netið innheimtir gjöld af notendum fyrir tengingar þeirra, samkvæmt gjaldskrá sem samþykkt er af stjórn FS-nets. Ef umferð einstakrar tengingar fer yfir eðlilegt hlutfall af heildarumferð áskilur stjórn sér rétt til að innheimta sérstaklega fyrir þá notkun. Gjaldskrá er endurskoðuð reglulega.

V. Skilmálar varðandi notkun FS-nets

  • Almennir skilmálar

Tilgangur FS-nets er að greiða fyrir viðteknum Internetsamskiptum milli aðila FS-nets innbyrðis og annarra neta. Aðeins má nota netið og tengingar þess við önnur net í samræmi við hlutverk þess og þessa notkunarskilmála. Reglur FS-nets gilda um alla notendur og eru ófrávíkjanlegar lágmarksreglur. Hverjum tengdum aðila er þó heimilt að setja strangari reglur fyrir eigin notendur.

  • Miðlun upplýsinga um skilmála

Sérhver aðili sem tengdur er FS-neti á grundvelli 3.- 5. gr. reglna þessara skal miðla til starfsmanna sinna og annarra sem nota tengingu hans upplýsingum um þá skilmála sem um notkunina gilda.

  • Óleyfileg umferð

Bannað er að nota FS-netið fyrir:
a. Umferð sem truflar vinnu annarra á netinu eða netið sjálft eða veldur því að notendur eða tölvur tapa gögnum.
b. Hvers kyns óumbeðna fjöldadreifingu á upplýsingum, svo sem auglýsingar, stjórnmálaáróður og „keðjubréf“ eða dreifingu efnis á póstlista sem er óviðkomandi viðfangsefni listans.
c. Sendingar sem valda umferð á neti tengdu FS-neti og fer í bága við notkunarskilmála þessa.
d. Umferð sem stríðir gegn siðareglum FS-nets, sbr. 14. gr.

  • Siðareglur FS-nets

Í framhaldskóla- og símenntunarsamfélaginu er almennt við það miðað að halda beri netum eins opnum og unnt er.
Gert er ráð fyrir að notendur virði almennar umgengnisvenjur og siðareglur. Því leyfir FS-netið engar tilraunir eða háttalag sem miðar að því:
a. Að nota netþjónustu í leyfisleysi.
b. Að beita duldum eða röngum notendaauðkennum í tölvusamskiptum.
c. Að trufla viðtekna notkun netsins.
d. Að skemma eða breyta í heimildarleysi upplýsingum sem geymdar eru á tölvutæku formi.
e. Að rjúfa friðhelgi einkalífs manna eða raska viðskipta- og fjárhagslegum hagsmunum lögaðila.
f. Að rægja eða lítilsvirða nafngreinda menn eða hópa, eða dreifa upplýsingum sem eru villandi eða beinlínis rangar.

  • Viðurlög

Allir þeir sem tengjast FS-neti skuldbinda sig til að hlíta ofangreindum skilmálum.
Brot gegn bannákvæðum og öðrum skilmálum geta varðað þá aðila viðurlögum sem tengdir eru FS-neti. Stjórn FS-nets er heimilt að rjúfa aðgang tengds aðila að netinu ef fram kemur
rökstuddur grunur um brot á skilmálum þessum af hálfu notenda hans.
16. Gildistaka o.fl.
Ofangreindar reglur voru samþykktar af stjórn FS-nets í nóvember 2007. Stjórn FS-nets annast framkvæmd reglnanna og er heimilt að gera breytingar á þeim eins og þurfa þykir. Breytingar
sem stjórn FS-nets gerir á reglunum taka gildi þremur sólarhringum eftir að efni þeirra hefur verið kynnt fyrir öllum aðilum sem tengjast FS-neti.