Spurt og svarað

 

Almennt um samræmd könnunarpróf

 • Hver er tilgangur samræmdra könnunarprófa?

  Hlutverk og markmið samræmdra könnunarprófa er í raun margþætt. Í lögum um grunnskóla, aðalanámskrá og reglugerð er fjallað um námsmat og samræmd könnunarpróf. Í 3. gr. reglugerðar nr. 173/2017 segir:

  „Tilgangur samræmdra könnunarprófa í grunnskólum er að:

  1. athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í við­kom­andi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,
  2. vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda,
  3. veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,
  4. veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar og skólakerfið í heild stendur í þeim náms­greinum og námsþáttum sem prófað er úr.

  Niðurstöður prófa skulu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt. Menntamálastofnun skal nýta niðurstöður prófa til að stuðla að umbótum og þróun í skóla­starfi.

  Eins og hér kemur fram er samræmdum könnunarprófum ætlað að vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda og veita menntayfirvöldum upplýsingar.

  Niðurstöður samræmdra könnunarprófa eru eingöngu aðgengilegar nemandanum sjálfum, forráðamönnum hans og kennaranum.

  Dæmi: Eins og fyrr sagði taka prófin til ólíkra námsþátta. Til dæmis metur íslenskuprófið málnotkun, lesskilning og fleiri þætti sem veita vísbendingu um hvort kennslan hafi skilað árangri. Í hverju prófi er ákveðinn fjöldi prófatriða úr hverjum námsþætti sem gefur vísbendingu um námsstöðu nemandans í þeim þætti sem verið er að prófa úr í því fagi. Prófið veitir ekki heildarmynd af námslegri stöðu viðkomandi en er einn af nokkrum þáttum sem geta byggt upp mynd af námsstöðu nemandans. Þannig fær nemandinn niðurstöðu úr hverjum námsþætti og fær til dæmis einhvern samanburð við árangur jafnaldra sinna (með raðeinkunn). Skólar fá, eftir að prófin eru tekin, upplýsingar um árangur síns skóla í viðkomandi námsgreinum sem birtar eru í sérstökum skýrslugrunni (skyrslur.mms.is). Þar birtist árangur hvers skóla miðað við meðaltal landsins og fleiri þætti, alltaf heildarinnar (skólanna) aldrei árangur hvers og eins nemanda.  

 • Af hverju samræmd könnunarpróf?

  Samkvæmt 39. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 skal mennta- og menningarmálaráðuneytið standa fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum með því að leggja fyrir samræmd könnunarpróf. Í lögunum segir að leggja eigi fram samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla en nemendur á unglingastigi skuli þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. 

  Nánari útfærslu á samræmdum könnunarprófum er hægt að sjá í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla nr. 173/2017. Með reglugerðinni er ákveðið að samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk fari fram að hausti (september) en prófin í 9. bekk fari fram að vori (mars). 

  Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Menntamálastofnun umsjón með gerð og framkvæmd samræmdra könnunarprófa eins og nánar er kveðið á um í fyrrgreindri reglugerð. 

 • Hvert er innihald samræmdra könnunarprófa?

  Samræmd könnunarpróf reyna á kunnáttu, hæfni og leikni nemenda í íslensku, ensku og stærðfræði. Prófin eru samin út frá matsviðmiðum aðalnámskrár en horfa einnig til hæfniviðmiða hennar.

  Spurningar í prófunum (efnisatriði prófsins) eru búnar til af reyndum kennurum og sérfræðingum í prófagerð. Allar spurningar prófsins byggja á námsefni og námsmarkmiðum sem eru tilgreind í aðalnámskrá. Aðalnámskrá leggur áherslu á kunnáttu, hæfni og leikni nemenda en ekki ákveðin afmörkuð efnisatriði. Þannig er ekki gefinn út sérstakur listi af atriðum heldur lögð fram fjölbreytt próf sem reyna á ólíka kunnáttu, hæfni og leikni. Rétt er að taka fram að námshraði einstakra nemenda er breytilegur og hæfni mismunandi. Samræmd könnunarpróf taka mið af þessu og er efni þeirra því mjög fjölbreytt. Í þeim eru prófverkefni sem eiga að reyna á slaka jafnt sem sterka námsmenn. Ekki er notast við spurningar sem reyna á utanbókarlærdóm og beinar þekkingarspurningar. 

  Á vef Menntamálastofnunar er hægt að sjá kynningarpróf og önnur próf. Þar má sjá dæmi um innihald samræmdra könnunarprófa. 

 • Hver er lagalegur munur á námsmati skóla og samræmdum könnunarprófum?

  Í aðalnámskrá grunnskóla, sjá auglýsingu nr. 760/2011, ásamt síðari breytingum, sbr. auglýsingar nr. 838/2015 og nr. 894/2016, kemur fram að námsmat í hverri námsgrein er í höndum viðkomandi kennara skv. nánari leiðsögn í námskránni og skólanámskrá viðkomandi skóla.

  Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 eiga nemendur og foreldrar þeirra rétt á upplýsingum um niðurstöður námsmats, matsaðferðir og matstæki, þar með talið að skoða metin verkefni og prófúrlausnir. Þá segir að þeir eigi jafnframt rétt á munnlegum skýringum á námsmati og að niðurstaða námsmats sæti endurskoðun innan grunnskólans. Tekið er fram að slík endurskoðun teljist ekki ígildi stjórnsýslukæru í skilningi stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. 47. gr. laganna segir að ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda sem teknar eru á grundvelli laganna séu kæranlegar til ráðherra. Frá þeirri meginreglu er gerð sú undantekning í 2. mgr. 47. gr. laganna að ákvarðanir um námsmat sæta ekki kæru til ráðherra. Hvorki endurskoðunarheimild 3. mgr. 27. gr. né almenn kæruheimild 1. mgr. 47. gr. laganna eiga þó við um samræmt námsmat þar sem framkvæmd samræmdra könnunarprófa er á hendi ráðherra.

  Af lestri ákvæða 39. gr. grunnskólalaga um samræmt námsmat, reglugerðar um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla, nr. 173/2017 og aðalnámskrá grunnskóla má draga þá ályktun að niðurstöður samræmdra könnunarprófa hafi engin áhrif á niðurstöður almenns námsmats skv. 27. gr. grunnskólalaga og veiti engin sérstök réttindi t.d. til frekara náms, þótt þau kunni á hinn bóginn að vera meðal þeirra gagna sem nemandi getur látið fylgja með umsókn sinni um skólavist í framhaldsskóla, sbr. 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1150/2008.

  Samræmd könnunarpróf hafa engu að síður þann tilgang að veita nemendum endurgjöf um stöðu þeirra í viðkomandi námsgrein, með það að markmiði að nemendur eigi þess kost að bæta námsárangur sinn fyrir lok grunnskóla. 

 • Eru samræmd könnunarpróf besta námsmatið?

  Námsmat í skólum fer fram með fjölbreyttum aðferðum, til dæmis má nefna munnleg verkefni, verkleg, skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar, einstaklingsverkefni, hópverkefni, verkefnamöppur, rafræn verkefni, próf og fleira. Það hvíla lagalegar skyldur á grunnskólum að vera með námsmat og framkvæma það með ákveðnum hætti.

  Til dæmis eru skólar ábyrgir fyrir námsmati að loknum grunnskóla og það námsmat nota framhaldsskólar til að meta inntöku nemenda í framhaldsskóla. Þannig má segja að meira en 99% af því námsmati sem fram fer sé í höndum kennara og skóla. 

  Samræmd könnunarpróf eru lítill hluti af því heildarnámsmati sem fram fer í skólum og mikilvægt að nálgast prófin með því hugarfari. Samræmd könnunarpróf eiga að meta hæfni og færni nemenda í samræmi við aðalnámskrá. Ennfremur liggur fyrir að samræmd könnunarpróf meta einungis ákveðna þætti í aðalnámskrá en ekki alla þá námsþætti sem eru tilgreindir þar. Til dæmis er ekki verið að meta hlustun, sköpun og ýmsa aðra mikilvæga námsþætti.  

   

 • Við höfum heyrt orðin kynningarpróf, sýnispróf, könnunarpróf og samræmt könnunarpróf – getið þið útskýrt þetta?

  Hér áður fyrr var bara lagt fyrir eitt próf og það próf var ákveðið lokapróf í 10. bekk, sem síðan var notað sem ákveðið gagn við inntöku í framhaldsskóla. Þetta á ekki við lengur. 

  Kynningarpróf eru próf sem sett voru á heimasíðu Menntamálastofnunar til að kynna fyrir nemendum betur próftökuna og rafræna ferlið. Þetta var gert í fyrsta skipti nú í febrúar 2018 og hefur því verið vel tekið. Farið var inn í kynningarprófið um það bil 11.000 sinnum fyrir samræmdu könnunarprófin í mars. Þetta er í raun gamalt próf sem hefur verið sett inn í rafræna prófakerfið.  

  Könnunarpróf er próf sem lagt er fram í skólum til að kanna stöðu nemenda, meta hvort markmiðum náms hefur verið náð og fleira í þeim dúr. Til að hjálpa nemanda við nám er mikilvægt að vita hvar hann stendur og móta kennsluaðferðir í samræmi við styrkleika og veikleika nemandans.  

  Samræmd könnunarpróf eru próf sem ná yfir stærri hóp og eru lögð fyrir með samræmdum hætti. Þá er verið að leggja fyrir próf við sambærilegar aðstæður. Samræmd könnunarpróf eru almenns eðlis og ná yfir almenna færni. Þ.e. taka ekki mið af stöðu einstakra nemenda, yfirferð á námsefni í einstökum skólum eða aðstæðubundnum þáttum í skólum.     

  Sýnispróf eru próf sem í eðli sínu eru alveg eins og prófið sem lagt var fyrir. Þau eru útbúin þar sem ekki má birta sjálf könnunarprófin. Þar er hægt að sjá á hvaða matsviðmið hvert og eitt prófatriði reynir og útskýringu á hvaða hæfni spurningin reynir á. Nemendur og foreldrar sjá þannig hvort nemandinn hefur náð þeirri hæfni sem hver og ein spurning prófar.

 • Af hverju leggið þið ekki prófin fyrir á pappír?

  Eftir vandamál síðustu daga mun Menntamálastofnun fara yfir alla ferla og skoða með gagnrýnum hætti fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Fyrirlögn á prófum á pappír þýðir að prenta þarf út mikið af gögnum, senda til allra skóla með góðum fyrirvara og eins þarf yfirsetu óháðs aðila og fleira slíkt. Síðan er mikil vinna við úrvinnslu á pappír og þungt ferli að passa að öll einkunnagjöf og skráning fari rétt fram.

  Reynsla síðustu áratuga hefur sýnt að ýmis mistök geta komið fram við fyrirlögn á pappír. Rafræn fyrirlögn hefur farið fram í þrjú skipti og ekki komið upp svona vandamál áður. Það eru ýmsir gallar í rafrænni fyrirlögn en samt hefur það ferli þótt sveigjanlegra og í heildina betra. Menntamálastofnun hefur sett á vef sinn nokkrar skýrslur um fyrirlögn rafrænna prófa.

 • Þessi tenging samræmdra könnunarprófa við inntöku í framhaldsskóla er ekki góð og eykur kvíða og spennustig hjá nemendum.

  Innritun í framhaldsskóla byggist að mestu á þeim einkunnum sem nemendur fá við lok 10. bekkjar. Þetta er námsmat sem fer fram á vegum grunnskólans. 

  Samkvæmt reglugerð nr. 1199/2016 er framhaldsskólum heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni. Þar á meðal eru niðurstöður samræmdra könnunarprófa. Í þeim tilvikum þegar velja þarf úr stórum hópi umsækjenda er framhaldsskólum heimilt að hafa niðurstöður samræmdra könnunarprófa til hliðsjónar. Önnur viðbótargögn geta verið staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi, svo sem íþróttum, listum, tungumálum og raungreinum.

  Það er alveg ljóst að þessi tenging við innritun í framhaldsskóla hefur áhrif á viðhorf til samræmdra könnunarprófa og eykur það álag sem er til staðar hjá nemendum.

  Ráðuneytið hefur lýst yfir vilja til að gera breytingu á þessari reglugerð og taka út heimild framhaldsskóla til að hafa niðurstöður samræmdra könnunarprófa til hliðsjónar.

 • Hvernig hafa prófin breyst? Hvenær hættu þau að vera lokapróf og urðu könnunarpróf?

  Umtalsverð breyting var gerð á samræmdum könnunarprófum á árunum 2008-2009 þegar grunnskólalög voru endurskoðuð.

  Þá var prófunum fækkað úr sex í þrjú, ákveðið að þau verði ekki lokapróf og fái stöðu könnunarprófa þess í stað. Þá voru próf í 10. bekk færð á haustið, það er sett á sama tíma og 4. og 7. bekkur. Skólaárið  2016-2017 voru prófin gerð rafræn og í stað 10. bekkjar að hausti eru þau lögð fyrir 9. bekk að vori. Núverandi fyrirkomulag prófa er tilgreint í reglugerð.

 • Hvernig er með samræmd könnunarpróf í öðrum löndum?

  Í heildina eru samræmd könnunarpróf í öðrum löndum mjög áþekk þegar litið er til uppbyggingar, framsetningar og úrvinnslu prófa. Mörg lönd leggja samræmd könnunarpróf mun oftar fyrir og prófa úr fleiri námsgreinum. 

  Sem dæmi má nefna að í Noregi er prófað í 5., 8. og 9. bekk í lestri, stærðfræði og ensku. Í Danmörku er prófað í öllum árgöngum en mismunandi er á milli ára hvaða próf eru skyldupróf. Námsgreinar sem prófað er úr eru danska/lestur, stærðfræði, enska, landafræði, líffræði, eðlis-/efnafræði.

  Á meðan Ísland hefur verið að þróast í þá átt að leggja fyrir könnunarpróf þá eru mörg lönd með ákveðin lokapróf, sem notuð eru sem grundvöllur að frekara námi eða til inntöku í ákveðna skóla.

 • Hvað er rafrænt prófakerfi?

  Rafrænt prófakerfi er þannig að unnt er að setja spurningar, myndir, töflur og fleira inn í kerfið. Það þarf að vera hægt að setja upp próf með ólíkum hætti, í mismunandi námsgreinum og bekkjum.

  Prófið þarf að hafa valmyndir á íslensku og geta meðhöndlað íslenska stafi. Þá þarf að vera unnt að setja saman prófkóða og persónueinkenni. Það þarf að vera hægt að aðlaga próftöku af ólíkum tölvum og tækjum og hafa tengingu við alla skóla landsins. Birtingarmyndir fyrir nemendur þurfa að vera skýrar og falla vel á ólíka skjái. Það þarf að vera unnt að nota reiknivél og formúlublað inni í prófinu.

  Nauðsynlegt er að veflás sé til staðar þannig að próftakar geti ekki farið á netið eða sótt önnur gögn meðan á fyrirlögn stendur. Kerfið þarf að halda utan um ólíka próftíma (innskráning á ólíkum tímum og klukku) og þarf að geyma bæði prófsvör og próftíma ef tölva viðkomandi stoppar skyndilega. Prófakerfið þarf að bjóða upp á að spurningar og svör séu lesin fyrir nemendur sem er ákveðið stuðningsúrræði. Það þarf að vera unnt að hafa nokkur ólík próf á sama tíma (a-próf, b-próf og próf með stuðningsúrræði). Prófakerfið þarf að halda utan um svör allra nemenda við öllum prófatriðum og bjóða upp á örugga úrvinnslu á gögnum.

  Kerfið þarf að bjóða upp á próffræðilega úrvinnslu og ákveðinn sveigjanleika. Kerfið þarf að geta haldið utan um kynningarpróf (æfingapróf) og forprófun prófatriða. Þá þarf prófakerfið að henta þeim sem eru með sjónskerðingu, þurfa lesinn texta og fleira. Síðan ætti prófakerfið að geta staðið undir álagi þegar rúmlega 4.000 nemendur skrá sig inn á sama tíma. 

  Menntamálastofnun hefur ekki haft þau aðföng sem þarf til að byggja upp og viðhalda slíku kerfi. 

 • Hvernig búið þið til prófin - er þetta vandað ferli?

  Öll prófverkefni eru samin af sérfræðingum stofnunarinnar sem eru kennarar og próffræðingar.

  Horft er til hæfniviðmiða aðalnámskrár og verkefni tengd þeim.

  Íslenska og enska: Textarnir þurfa að gefa kost á ýmsum gerðum spurninga sem reyna á fjölþætta hæfni, svo sem að beita mismunandi hugtökum, nýta sér þekkingu og skilning á orðaforða, geta lesið á milli lína og túlkað efni texta.

  Stærðfræðiverkefni skiptast í mismunandi efnisflokka eftir aldursstigum; reikning og aðgerðir, rúmfræði, algebru, tölur og talnaskilning og hlutföll og prósentur.

  Þegar prófatriði hafa verið samin eru þau tekin fyrir á textafundi, löguð og bætt af prófahópi. Eftir það fara þau í forprófun þar sem þau eru lögð fyrir tiltekinn fjölda nemenda í skólum. Ef prófatriði stenst ekki próffræðilega rýni eftir forprófun er það lagfært fyrir aðra forprófun eða því hent. Enginn texti fer í próf sem ekki stenst kröfur um gerð prófatriða. Öll próf eru yfirlesin af prófahópi, sérfræðingum, prófarkalesara og reyndum kennurum.

 • Hvað er raðeinkunn?

  Raðeinkunn byggir á stöðu nemenda í hverjum árgangi fyrir sig og segir til um hvernig nemandi stendur miðað við aðra nemendur í sama árgangi. Þessi einkunn er samanburðarhæf milli ára og milli námsgreina. Nemandi sem fær raðeinkunnina 60 stendur sig jafn vel eða betur en 60% árgangsins.

 

Hér má sjá spurningar og svör er varða undirbúning og framkvæmd samræmdra könnunarprófa 

 

 • Útbýr hver skóli minnisblað fyrir stuðningsúrræði fyrir foreldra til samþykktar?

  Eyðublað vegna stuðningsúrræða er á vef Menntamálastofnunar. Foreldri þarf að samþykkja með undirskrift sinni. 

   

 • Hvernig hefur fyrirkomulag vegna stuðningsúrræða breyst?

  Fyrirkomulag vegna  stuðningsúrræða hefur verið einfaldað. Einungis þarf að skráð beiðni um stuðningsúrræði en ekki er skilgreint hvernig eða hversvegna.  Hins vegar þurfa skólar eftir sem áður að fylla út tilskilin eyðublöð og geyma á öruggan hátt í skólanum. 

 • Hvaða hlutverki gegna kynningarprófin?

  Hlutverk þeirra er að æfa sig fyrir samræmd könnunarpróf. Þau eru þrjú: íslenska, enska og stærðfræði og eru í fullri lengd. Einnig er hægt að æfa sig í að skrá sig inn og út úr prófi, prófa vasareikni og hvernig leysa á verkefni. 

 • Hvað þýðir að ritun verði færð í Lesferil?

  Ritun er ekki lengur prófþáttur í samræmdum könnunarprófum. Vinna í stöðluðum ritunar- og stafsetningarprófum er í gangi og verður tilkynnt þegar þau standa skólum til boða.

 • Verða öll málfræðihugtök skrifum fullum fetum eða má gera ráð fyrir að notaðar séu skammstafanir?

  Það verða engar skammstafanir á hugtökum í íslensku- og enskuprófunum.

 • Geta nemendur æft sig við notkun hljóðskrár í kynningarprófinu?

  Hljóðskrá fylgir fyrsta lestexta og verkefnum tengd honum í íslensku og ensku. Í stærðfræði fylgir hljóðskrá í fyrstu 10 dæmunum. 

 • Er hægt að koma upp einhverju kerfi þannig að við sem skráum stuðningsúrræði gleymum ekki einhverjum einum, þá þess að þurfa að fara inn á alla til að athuga?

  Þetta þarf að athuga með tilliti til persónuverndar. Ef til vill þurfa skólar að finna slíkt kerfi, hver umsjónarkennari gæti t.d. litið yfir sínn hóp.

 • Hvaða verkfæri eru í stærðfræðiprófinu?

  Vasareiknir í þeim hluta sem þeir eru leyfðir.

 • Mega nemendur nota sína eigin vasareikna?

  Notkun vasareikna er heimil í öllu prófinu. Prófinu er EKKI skipt í hluta þar sem reiknivélar eru ýmist heimilar eða ekki.
  Líkt og í fyrra verða forritanlegir vasareiknar heimilir, svo lengi sem vasareiknirinn er endurræstur fyrir og eftir prófið.
  Ekki er sérstaklega merkt við prófatriði eða dæmi að nota þurfi vasareiknirinn við lausn þeirra, breytilegt er eftir nemendum hve oft og í hvaða prófatriðum þeir kjós að nota hann.

 • Má hleypa nemendum í frímínútur?

  Nei, próftíminn er samfelldur.

 • Eru orðadæmin tekin upp? Þ.e. geta lesblindir nemendur hlustað á dæmin?

  Allur texti er lesinn í stuðningsúrræðum. Þar með talinn texti í dæmum og svörum.

 • Er sveigjanleiki á því hvenær próf skulu hefjast?

  Skólar eiga kost á að halda tvær próflotur hvern prófdag ef þörf er á að skipta nemendahópnum. Hefst þá fyrri lota á tímabilinu 8:10 til 9:00 og hefst sú síðari að þeirri fyrri lokinni. Henti þessar tímasetningar illa geta skólastjórnendur ákveðið að hefja próf fyrr eða síðar; á tímabilinu 8:00 til 9:00. Hefjist próf fyrr eða síðar en þessar tímasetningar segja til um hliðrast aðrar tímasetningar til í samræmi við það. Gott er að skrifa þann tíma á töflu eða minnisblað í stofunni.

 • Af hverju er sama sýnisdæmið notað við mismunandi prófverkefni?

  Sýnisdæmin sem eru notuð oftar en einu sinni ná yfir fleiri en eitt prófatriði. Þ.e. þau vitna um hvað er verið að prófa í fleiri en einu prófatriði og því hægt að nota sama sýnisdæmið. Hve margar opnar spurningar verða í stærðfræðiprófinu?

 • Hve margar opnar spurningar verða í stærðfræðiprófinu?

  Þær verða á bilinu 4 – 8.

 • Varðandi spurningar í stærðfræðiprófinu, verður gefið einungis rétt eða rangt eða geta nemendur fengið hálft stig fyrir næstum rétt svar?

  Einungis verður gefið eitt stig fyrir svör á þessum prófatriðum.

 • Verður formúlublaðið afhent nemendum á pappír eða rafrænt?

  Formúlublað er aðgengilegt og geta skólar prentað það út svo nemendur geti haft það við höndina í prófin.

 • Má mæta með forritanlegan vasareikni í prófið?

  Já það er heimilað svo lengi sem hann er endurræstur fyrir og eftir prófið.

 • Má nota vasareikni í öllu prófinu?

  Já.

 • Verður hægt að senda inn prófið án þess að hafa svarað öllum spurningunum?

  Nemendur geta skráð sig út úr prófinu og sent það inn án þess að svara öllum spurningum.

 • Verður ekki spurt um ljóð og bragfræði í íslensku?

  Ýmsar tegundir af bókmennta- og upplýsingatextum geta verið á prófi í íslensku.  Ljóð er ein þessara tegunda af textum.

 • Hver er ástæða þess að það eru þrjár útgáfur af prófinu?

  Ein af útgáfunum er fyrir nemendur með lestrarstuðning og lengri tíma. Ástæður fyrir hinum tveimur er annarsvegar sú að nemendur sitja mjög þétt í sumum skólum og þetta dregur úr líkum á að nemendur sem sitja hlið við hlið hafi sömu útgáfu. Hinsvegar unnið er í þá átt að hafa aðlögunarhæf próf.

 • Gera tvær prófútgáfur ekki skólunum erfiðara fyrir að greina niðurstöður þegar þær berast?

  Nei, niðurstöður eru gerðar jafngildar milli prófdaga.

 • Í fyrra var gefið út að það væri ekki prófað úr 2. stigs jöfnum og Pýþagóras í stærðfræðinni. Er það aftur þannig í ár?

  Í prófinu verða atriði er reyna á nemendur með bæði mikla og litla færni og nemendur þar á milli. Breytilegt verður því hvaða prófatriði reynast hverjum nemanda létt eða þung. Hægt er að reyna á kunnáttu, leikni og færni þeirra nemenda sem lengst eru komnir í stærðfræði án þess að draga inn ofangreind atriði sem almennt eru ekki kynnt til sögunnar fyrr en í 10. bekk.