Spurt og svarað

 

Almennt um samræmd könnunarpróf

 • Hver er tilgangur samræmdra könnunarprófa?

  Hlutverk og markmið samræmdra könnunarprófa er í raun margþætt. Í lögum um grunnskóla, aðalanámskrá og reglugerð er fjallað um námsmat og samræmd könnunarpróf. Í 3. gr. reglugerðar nr. 173/2017 segir:

  „Tilgangur samræmdra könnunarprófa í grunnskólum er að:

  1. athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í við­kom­andi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,
  2. vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda,
  3. veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,
  4. veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar og skólakerfið í heild stendur í þeim náms­greinum og námsþáttum sem prófað er úr.

  Niðurstöður prófa skulu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt. Menntamálastofnun skal nýta niðurstöður prófa til að stuðla að umbótum og þróun í skóla­starfi.

  Eins og hér kemur fram er samræmdum könnunarprófum ætlað að vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda og veita menntayfirvöldum upplýsingar.

  Niðurstöður samræmdra könnunarprófa eru eingöngu aðgengilegar nemandanum sjálfum, forráðamönnum hans og kennaranum.

  Dæmi: Eins og fyrr sagði taka prófin til ólíkra námsþátta. Til dæmis metur íslenskuprófið málnotkun, lesskilning og fleiri þætti sem veita vísbendingu um hvort kennslan hafi skilað árangri. Í hverju prófi er ákveðinn fjöldi prófatriða úr hverjum námsþætti sem gefur vísbendingu um námsstöðu nemandans í þeim þætti sem verið er að prófa úr í því fagi. Prófið veitir ekki heildarmynd af námslegri stöðu viðkomandi en er einn af nokkrum þáttum sem geta byggt upp mynd af námsstöðu nemandans. Þannig fær nemandinn niðurstöðu úr hverjum námsþætti og fær til dæmis einhvern samanburð við árangur jafnaldra sinna (með raðeinkunn). Skólar fá, eftir að prófin eru tekin, upplýsingar um árangur síns skóla í viðkomandi námsgreinum sem birtar eru í sérstökum skýrslugrunni (skyrslur.mms.is). Þar birtist árangur hvers skóla miðað við meðaltal landsins og fleiri þætti, alltaf heildarinnar (skólanna) aldrei árangur hvers og eins nemanda.  

 • Af hverju samræmd könnunarpróf?

  Samkvæmt 39. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 skal mennta- og menningarmálaráðuneytið standa fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum með því að leggja fyrir samræmd könnunarpróf. Í lögunum segir að leggja eigi fram samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla en nemendur á unglingastigi skuli þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. 

  Nánari útfærslu á samræmdum könnunarprófum er hægt að sjá í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla nr. 173/2017. Með reglugerðinni er ákveðið að samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk fari fram að hausti (september) en prófin í 9. bekk fari fram að vori (mars). 

  Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Menntamálastofnun umsjón með gerð og framkvæmd samræmdra könnunarprófa eins og nánar er kveðið á um í fyrrgreindri reglugerð. 

 • Hvert er innihald samræmdra könnunarprófa?

  Samræmd könnunarpróf reyna á kunnáttu, hæfni og leikni nemenda í íslensku, ensku og stærðfræði. Prófin eru samin út frá matsviðmiðum aðalnámskrár en horfa einnig til hæfniviðmiða hennar.

  Spurningar í prófunum (efnisatriði prófsins) eru búnar til af reyndum kennurum og sérfræðingum í prófagerð. Allar spurningar prófsins byggja á námsefni og námsmarkmiðum sem eru tilgreind í aðalnámskrá. Aðalnámskrá leggur áherslu á kunnáttu, hæfni og leikni nemenda en ekki ákveðin afmörkuð efnisatriði. Þannig er ekki gefinn út sérstakur listi af atriðum heldur lögð fram fjölbreytt próf sem reyna á ólíka kunnáttu, hæfni og leikni. Rétt er að taka fram að námshraði einstakra nemenda er breytilegur og hæfni mismunandi. Samræmd könnunarpróf taka mið af þessu og er efni þeirra því mjög fjölbreytt. Í þeim eru prófverkefni sem eiga að reyna á slaka jafnt sem sterka námsmenn. Ekki er notast við spurningar sem reyna á utanbókarlærdóm og beinar þekkingarspurningar. 

  Á vef Menntamálastofnunar er hægt að sjá kynningarpróf og önnur próf. Þar má sjá dæmi um innihald samræmdra könnunarprófa. 

 • Hver er lagalegur munur á námsmati skóla og samræmdum könnunarprófum?

  Í aðalnámskrá grunnskóla, sjá auglýsingu nr. 760/2011, ásamt síðari breytingum, sbr. auglýsingar nr. 838/2015 og nr. 894/2016, kemur fram að námsmat í hverri námsgrein er í höndum viðkomandi kennara skv. nánari leiðsögn í námskránni og skólanámskrá viðkomandi skóla.

  Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 eiga nemendur og foreldrar þeirra rétt á upplýsingum um niðurstöður námsmats, matsaðferðir og matstæki, þar með talið að skoða metin verkefni og prófúrlausnir. Þá segir að þeir eigi jafnframt rétt á munnlegum skýringum á námsmati og að niðurstaða námsmats sæti endurskoðun innan grunnskólans. Tekið er fram að slík endurskoðun teljist ekki ígildi stjórnsýslukæru í skilningi stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. 47. gr. laganna segir að ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda sem teknar eru á grundvelli laganna séu kæranlegar til ráðherra. Frá þeirri meginreglu er gerð sú undantekning í 2. mgr. 47. gr. laganna að ákvarðanir um námsmat sæta ekki kæru til ráðherra. Hvorki endurskoðunarheimild 3. mgr. 27. gr. né almenn kæruheimild 1. mgr. 47. gr. laganna eiga þó við um samræmt námsmat þar sem framkvæmd samræmdra könnunarprófa er á hendi ráðherra.

  Af lestri ákvæða 39. gr. grunnskólalaga um samræmt námsmat, reglugerðar um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla, nr. 173/2017 og aðalnámskrá grunnskóla má draga þá ályktun að niðurstöður samræmdra könnunarprófa hafi engin áhrif á niðurstöður almenns námsmats skv. 27. gr. grunnskólalaga og veiti engin sérstök réttindi t.d. til frekara náms, þótt þau kunni á hinn bóginn að vera meðal þeirra gagna sem nemandi getur látið fylgja með umsókn sinni um skólavist í framhaldsskóla, sbr. 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1150/2008.

  Samræmd könnunarpróf hafa engu að síður þann tilgang að veita nemendum endurgjöf um stöðu þeirra í viðkomandi námsgrein, með það að markmiði að nemendur eigi þess kost að bæta námsárangur sinn fyrir lok grunnskóla. 

 • Eru samræmd könnunarpróf besta námsmatið?

  Námsmat í skólum fer fram með fjölbreyttum aðferðum, til dæmis má nefna munnleg verkefni, verkleg, skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar, einstaklingsverkefni, hópverkefni, verkefnamöppur, rafræn verkefni, próf og fleira. Það hvíla lagalegar skyldur á grunnskólum að vera með námsmat og framkvæma það með ákveðnum hætti.

  Til dæmis eru skólar ábyrgir fyrir námsmati að loknum grunnskóla og það námsmat nota framhaldsskólar til að meta inntöku nemenda í framhaldsskóla. Þannig má segja að meira en 99% af því námsmati sem fram fer sé í höndum kennara og skóla. 

  Samræmd könnunarpróf eru lítill hluti af því heildarnámsmati sem fram fer í skólum og mikilvægt að nálgast prófin með því hugarfari. Samræmd könnunarpróf eiga að meta hæfni og færni nemenda í samræmi við aðalnámskrá. Ennfremur liggur fyrir að samræmd könnunarpróf meta einungis ákveðna þætti í aðalnámskrá en ekki alla þá námsþætti sem eru tilgreindir þar. Til dæmis er ekki verið að meta hlustun, sköpun og ýmsa aðra mikilvæga námsþætti.  

   

 • Við höfum heyrt orðin kynningarpróf, sýnispróf, könnunarpróf og samræmt könnunarpróf – getið þið útskýrt þetta?

  Hér áður fyrr var bara lagt fyrir eitt próf og það próf var ákveðið lokapróf í 10. bekk, sem síðan var notað sem ákveðið gagn við inntöku í framhaldsskóla. Þetta á ekki við lengur. 

  Kynningarpróf eru próf sem sett voru á heimasíðu Menntamálastofnunar til að kynna fyrir nemendum betur próftökuna og rafræna ferlið. Þetta var gert í fyrsta skipti nú í febrúar 2018 og hefur því verið vel tekið. Farið var inn í kynningarprófið um það bil 11.000 sinnum fyrir samræmdu könnunarprófin í mars. Þetta er í raun gamalt próf sem hefur verið sett inn í rafræna prófakerfið.  

  Könnunarpróf er próf sem lagt er fram í skólum til að kanna stöðu nemenda, meta hvort markmiðum náms hefur verið náð og fleira í þeim dúr. Til að hjálpa nemanda við nám er mikilvægt að vita hvar hann stendur og móta kennsluaðferðir í samræmi við styrkleika og veikleika nemandans.  

  Samræmd könnunarpróf eru próf sem ná yfir stærri hóp og eru lögð fyrir með samræmdum hætti. Þá er verið að leggja fyrir próf við sambærilegar aðstæður. Samræmd könnunarpróf eru almenns eðlis og ná yfir almenna færni. Þ.e. taka ekki mið af stöðu einstakra nemenda, yfirferð á námsefni í einstökum skólum eða aðstæðubundnum þáttum í skólum.     

  Sýnispróf eru próf sem í eðli sínu eru alveg eins og prófið sem lagt var fyrir. Þau eru útbúin þar sem ekki má birta sjálf könnunarprófin. Þar er hægt að sjá á hvaða matsviðmið hvert og eitt prófatriði reynir og útskýringu á hvaða hæfni spurningin reynir á. Nemendur og foreldrar sjá þannig hvort nemandinn hefur náð þeirri hæfni sem hver og ein spurning prófar.

 • Af hverju leggið þið ekki prófin fyrir á pappír?

  Eftir vandamál síðustu daga mun Menntamálastofnun fara yfir alla ferla og skoða með gagnrýnum hætti fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Fyrirlögn á prófum á pappír þýðir að prenta þarf út mikið af gögnum, senda til allra skóla með góðum fyrirvara og eins þarf yfirsetu óháðs aðila og fleira slíkt. Síðan er mikil vinna við úrvinnslu á pappír og þungt ferli að passa að öll einkunnagjöf og skráning fari rétt fram.

  Reynsla síðustu áratuga hefur sýnt að ýmis mistök geta komið fram við fyrirlögn á pappír. Rafræn fyrirlögn hefur farið fram í þrjú skipti og ekki komið upp svona vandamál áður. Það eru ýmsir gallar í rafrænni fyrirlögn en samt hefur það ferli þótt sveigjanlegra og í heildina betra. Menntamálastofnun hefur sett á vef sinn nokkrar skýrslur um fyrirlögn rafrænna prófa.

 • Þessi tenging samræmdra könnunarprófa við inntöku í framhaldsskóla er ekki góð og eykur kvíða og spennustig hjá nemendum.

  Innritun í framhaldsskóla byggist að mestu á þeim einkunnum sem nemendur fá við lok 10. bekkjar. Þetta er námsmat sem fer fram á vegum grunnskólans. 

  Samkvæmt reglugerð nr. 1199/2016 er framhaldsskólum heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni. Þar á meðal eru niðurstöður samræmdra könnunarprófa. Í þeim tilvikum þegar velja þarf úr stórum hópi umsækjenda er framhaldsskólum heimilt að hafa niðurstöður samræmdra könnunarprófa til hliðsjónar. Önnur viðbótargögn geta verið staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi, svo sem íþróttum, listum, tungumálum og raungreinum.

  Það er alveg ljóst að þessi tenging við innritun í framhaldsskóla hefur áhrif á viðhorf til samræmdra könnunarprófa og eykur það álag sem er til staðar hjá nemendum.

  Ráðuneytið hefur lýst yfir vilja til að gera breytingu á þessari reglugerð og taka út heimild framhaldsskóla til að hafa niðurstöður samræmdra könnunarprófa til hliðsjónar.

 • Hvernig hafa prófin breyst? Hvenær hættu þau að vera lokapróf og urðu könnunarpróf?

  Umtalsverð breyting var gerð á samræmdum könnunarprófum á árunum 2008-2009 þegar grunnskólalög voru endurskoðuð.

  Þá var prófunum fækkað úr sex í þrjú, ákveðið að þau verði ekki lokapróf og fái stöðu könnunarprófa þess í stað. Þá voru próf í 10. bekk færð á haustið, það er sett á sama tíma og 4. og 7. bekkur. Skólaárið  2016-2017 voru prófin gerð rafræn og í stað 10. bekkjar að hausti eru þau lögð fyrir 9. bekk að vori. Núverandi fyrirkomulag prófa er tilgreint í reglugerð.

 • Hvernig er með samræmd könnunarpróf í öðrum löndum?

  Í heildina eru samræmd könnunarpróf í öðrum löndum mjög áþekk þegar litið er til uppbyggingar, framsetningar og úrvinnslu prófa. Mörg lönd leggja samræmd könnunarpróf mun oftar fyrir og prófa úr fleiri námsgreinum. 

  Sem dæmi má nefna að í Noregi er prófað í 5., 8. og 9. bekk í lestri, stærðfræði og ensku. Í Danmörku er prófað í öllum árgöngum en mismunandi er á milli ára hvaða próf eru skyldupróf. Námsgreinar sem prófað er úr eru danska/lestur, stærðfræði, enska, landafræði, líffræði, eðlis-/efnafræði.

  Á meðan Ísland hefur verið að þróast í þá átt að leggja fyrir könnunarpróf þá eru mörg lönd með ákveðin lokapróf, sem notuð eru sem grundvöllur að frekara námi eða til inntöku í ákveðna skóla.

 • Hvað er rafrænt prófakerfi?

  Rafrænt prófakerfi er þannig að unnt er að setja spurningar, myndir, töflur og fleira inn í kerfið. Það þarf að vera hægt að setja upp próf með ólíkum hætti, í mismunandi námsgreinum og bekkjum.

  Prófið þarf að hafa valmyndir á íslensku og geta meðhöndlað íslenska stafi. Þá þarf að vera unnt að setja saman prófkóða og persónueinkenni. Það þarf að vera hægt að aðlaga próftöku af ólíkum tölvum og tækjum og hafa tengingu við alla skóla landsins. Birtingarmyndir fyrir nemendur þurfa að vera skýrar og falla vel á ólíka skjái. Það þarf að vera unnt að nota reiknivél og formúlublað inni í prófinu.

  Nauðsynlegt er að veflás sé til staðar þannig að próftakar geti ekki farið á netið eða sótt önnur gögn meðan á fyrirlögn stendur. Kerfið þarf að halda utan um ólíka próftíma (innskráning á ólíkum tímum og klukku) og þarf að geyma bæði prófsvör og próftíma ef tölva viðkomandi stoppar skyndilega. Prófakerfið þarf að bjóða upp á að spurningar og svör séu lesin fyrir nemendur sem er ákveðið stuðningsúrræði. Það þarf að vera unnt að hafa nokkur ólík próf á sama tíma (a-próf, b-próf og próf með stuðningsúrræði). Prófakerfið þarf að halda utan um svör allra nemenda við öllum prófatriðum og bjóða upp á örugga úrvinnslu á gögnum.

  Kerfið þarf að bjóða upp á próffræðilega úrvinnslu og ákveðinn sveigjanleika. Kerfið þarf að geta haldið utan um kynningarpróf (æfingapróf) og forprófun prófatriða. Þá þarf prófakerfið að henta þeim sem eru með sjónskerðingu, þurfa lesinn texta og fleira. Síðan ætti prófakerfið að geta staðið undir álagi þegar rúmlega 4.000 nemendur skrá sig inn á sama tíma. 

  Menntamálastofnun hefur ekki haft þau aðföng sem þarf til að byggja upp og viðhalda slíku kerfi. 

 • Hvernig búið þið til prófin - er þetta vandað ferli?

  Öll prófverkefni eru samin af sérfræðingum stofnunarinnar sem eru kennarar og próffræðingar.

  Horft er til hæfniviðmiða aðalnámskrár og verkefni tengd þeim.

  Íslenska og enska: Textarnir þurfa að gefa kost á ýmsum gerðum spurninga sem reyna á fjölþætta hæfni, svo sem að beita mismunandi hugtökum, nýta sér þekkingu og skilning á orðaforða, geta lesið á milli lína og túlkað efni texta.

  Stærðfræðiverkefni skiptast í mismunandi efnisflokka eftir aldursstigum; reikning og aðgerðir, rúmfræði, algebru, tölur og talnaskilning og hlutföll og prósentur.

  Þegar prófatriði hafa verið samin eru þau tekin fyrir á textafundi, löguð og bætt af prófahópi. Eftir það fara þau í forprófun þar sem þau eru lögð fyrir tiltekinn fjölda nemenda í skólum. Ef prófatriði stenst ekki próffræðilega rýni eftir forprófun er það lagfært fyrir aðra forprófun eða því hent. Enginn texti fer í próf sem ekki stenst kröfur um gerð prófatriða. Öll próf eru yfirlesin af prófahópi, sérfræðingum, prófarkalesara og reyndum kennurum.

 • Hvað er raðeinkunn?

  Raðeinkunn byggir á stöðu nemenda í hverjum árgangi fyrir sig og segir til um hvernig nemandi stendur miðað við aðra nemendur í sama árgangi. Þessi einkunn er samanburðarhæf milli ára og milli námsgreina. Nemandi sem fær raðeinkunnina 60 stendur sig jafn vel eða betur en 60% árgangsins.

 

Hér má sjá spurningar og svör er varða undirbúning og framkvæmd samræmdra könnunarprófa 

 

 • Útbýr hver skóli minnisblað fyrir stuðningsúrræði fyrir foreldra til samþykktar?

  Eyðublað vegna stuðningsúrræða er á vef Menntamálastofnunar. Foreldri þarf að samþykkja með undirskrift sinni. 

   

 • Hvernig hefur fyrirkomulag vegna stuðningsúrræða breyst?

  Fyrirkomulag vegna  stuðningsúrræða hefur verið einfaldað. Einungis þarf að skráð beiðni um stuðningsúrræði en ekki er skilgreint hvernig eða hversvegna.  Hins vegar þurfa skólar eftir sem áður að fylla út tilskilin eyðublöð og geyma á öruggan hátt í skólanum. 

 • Hvaða hlutverki gegna kynningarprófin?

  Hlutverk þeirra er að æfa sig fyrir samræmd könnunarpróf. Þau eru þrjú: íslenska, enska og stærðfræði og eru í fullri lengd. Einnig er hægt að æfa sig í að skrá sig inn og út úr prófi, prófa vasareikni og hvernig leysa á verkefni. 

 • Hvað þýðir að ritun verði færð í Lesferil?

  Ritun er ekki lengur prófþáttur í samræmdum könnunarprófum. Vinna í stöðluðum ritunar- og stafsetningarprófum er í gangi og verður tilkynnt þegar þau standa skólum til boða.

 • Verða öll málfræðihugtök skrifum fullum fetum eða má gera ráð fyrir að notaðar séu skammstafanir?

  Það verða engar skammstafanir á hugtökum í íslensku- og enskuprófunum.

 • Geta nemendur æft sig við notkun hljóðskrár í kynningarprófinu?

  Hljóðskrá fylgir fyrsta lestexta og verkefnum tengd honum í íslensku og ensku. Í stærðfræði fylgir hljóðskrá í fyrstu 10 dæmunum. 

 • Er hægt að koma upp einhverju kerfi þannig að við sem skráum stuðningsúrræði gleymum ekki einhverjum einum, þá þess að þurfa að fara inn á alla til að athuga?

  Þetta þarf að athuga með tilliti til persónuverndar. Ef til vill þurfa skólar að finna slíkt kerfi, hver umsjónarkennari gæti t.d. litið yfir sínn hóp.

 • Hvaða verkfæri eru í stærðfræðiprófinu?

  Vasareiknir í þeim hluta sem þeir eru leyfðir.

 • Mega nemendur nota sína eigin vasareikna?

  Notkun vasareikna er heimil í öllu prófinu. Prófinu er EKKI skipt í hluta þar sem reiknivélar eru ýmist heimilar eða ekki.
  Líkt og í fyrra verða forritanlegir vasareiknar heimilir, svo lengi sem vasareiknirinn er endurræstur fyrir og eftir prófið.
  Ekki er sérstaklega merkt við prófatriði eða dæmi að nota þurfi vasareiknirinn við lausn þeirra, breytilegt er eftir nemendum hve oft og í hvaða prófatriðum þeir kjós að nota hann.

 • Má hleypa nemendum í frímínútur?

  Nei, próftíminn er samfelldur.

 • Eru orðadæmin tekin upp? Þ.e. geta lesblindir nemendur hlustað á dæmin?

  Allur texti er lesinn í stuðningsúrræðum. Þar með talinn texti í dæmum og svörum.

 • Er sveigjanleiki á því hvenær próf skulu hefjast?

  Skólar eiga kost á að halda tvær próflotur hvern prófdag ef þörf er á að skipta nemendahópnum. Hefst þá fyrri lota á tímabilinu 8:10 til 9:00 og hefst sú síðari að þeirri fyrri lokinni. Henti þessar tímasetningar illa geta skólastjórnendur ákveðið að hefja próf fyrr eða síðar; á tímabilinu 8:00 til 9:00. Hefjist próf fyrr eða síðar en þessar tímasetningar segja til um hliðrast aðrar tímasetningar til í samræmi við það. Gott er að skrifa þann tíma á töflu eða minnisblað í stofunni.

 • Af hverju er sama sýnisdæmið notað við mismunandi prófverkefni?

  Sýnisdæmin sem eru notuð oftar en einu sinni ná yfir fleiri en eitt prófatriði. Þ.e. þau vitna um hvað er verið að prófa í fleiri en einu prófatriði og því hægt að nota sama sýnisdæmið. Hve margar opnar spurningar verða í stærðfræðiprófinu?

 • Hve margar opnar spurningar verða í stærðfræðiprófinu?

  Þær verða á bilinu 4 – 8.

 • Varðandi spurningar í stærðfræðiprófinu, verður gefið einungis rétt eða rangt eða geta nemendur fengið hálft stig fyrir næstum rétt svar?

  Einungis verður gefið eitt stig fyrir svör á þessum prófatriðum.

 • Verður formúlublaðið afhent nemendum á pappír eða rafrænt?

  Formúlublað er aðgengilegt og geta skólar prentað það út svo nemendur geti haft það við höndina í prófin.

 • Má mæta með forritanlegan vasareikni í prófið?

  Já það er heimilað svo lengi sem hann er endurræstur fyrir og eftir prófið.

 • Má nota vasareikni í öllu prófinu?

  Já.

 • Verður hægt að senda inn prófið án þess að hafa svarað öllum spurningunum?

  Nemendur geta skráð sig út úr prófinu og sent það inn án þess að svara öllum spurningum.

 • Verður ekki spurt um ljóð og bragfræði í íslensku?

  Ýmsar tegundir af bókmennta- og upplýsingatextum geta verið á prófi í íslensku.  Ljóð er ein þessara tegunda af textum.

 • Hver er ástæða þess að það eru þrjár útgáfur af prófinu?

  Ein af útgáfunum er fyrir nemendur með lestrarstuðning og lengri tíma. Ástæður fyrir hinum tveimur er annarsvegar sú að nemendur sitja mjög þétt í sumum skólum og þetta dregur úr líkum á að nemendur sem sitja hlið við hlið hafi sömu útgáfu. Hinsvegar unnið er í þá átt að hafa aðlögunarhæf próf.

 • Gera tvær prófútgáfur ekki skólunum erfiðara fyrir að greina niðurstöður þegar þær berast?

  Nei, niðurstöður eru gerðar jafngildar milli prófdaga.

 • Í fyrra var gefið út að það væri ekki prófað úr 2. stigs jöfnum og Pýþagóras í stærðfræðinni. Er það aftur þannig í ár?

  Í prófinu verða atriði er reyna á nemendur með bæði mikla og litla færni og nemendur þar á milli. Breytilegt verður því hvaða prófatriði reynast hverjum nemanda létt eða þung. Hægt er að reyna á kunnáttu, leikni og færni þeirra nemenda sem lengst eru komnir í stærðfræði án þess að draga inn ofangreind atriði sem almennt eru ekki kynnt til sögunnar fyrr en í 10. bekk.

 

Endurfyrirlögn samræmdra könnunarpróf vor og haust 2018

 • Af hverju ætlið þið að leggja fyrir samræmd könnunarpróf að nýju?

  Samkvæmt ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra munu nemendur í 9. bekk hafa kost á því að þreyta prófin í íslensku og ensku að nýju.

  Samkvæmt 39. gr. grunnskólalaga, nr. 91/2008, hvílir sú skylda á stjórnvöldum að leggja samræmd könnunarpróf fyrir nemendur í 4. og 7. bekk grunnskóla og nemendur á unglingastigi. Kveðið er á um nánari útfærslu á hvenær próf skulu lögð fyrir á unglingastigi í reglugerð nr. 173/2017. Þar er kveðið á um í 1. gr. að leggja skuli samræmd könnunarpróf fyrir 9. bekk í íslensku, stærðfræði og ensku að vori og skulu allir nemendur í 9. bekk, samkv. nánari ákvörðun ráðherra, gangast undir próf.

  Tilgangur prófanna í 9. bekk er fyrst og fremst sá að veita nemendum endurgjöf á stöðu sína þannig að þeir hafi tækifæri til að bæta hæfni sína fyrir lok grunnskóla. Auk þess er gert ráð fyrir að skólasamfélagið og menntayfirvöld fái ákveðnar upplýsingar um stöðu nemenda, skóla og menntakerfisins í heild.

  Ljóst er að framkvæmd samræmdra könnunarprófa í íslensku og ensku var haldin verulegum annmörkum. Aðeins hluti nemenda náði að ljúka prófi og því hafa stjórnvöld ekki uppfyllt þá lagaskyldu að veita nemendum endurgjöf. Mikilvægt er að leysa úr núverandi stöðu með það að markmiði að tryggja sem best rétt nemenda og jafnræði þeirra á milli. Með vísan til þess er réttast í stöðunni, til að uppfylla þá skyldu að veita nemendum endurgjöf, að bjóða nemendum að þreyta próf að nýju. Mikilvægt er hins vegar að vinna þá útfærslu í samvinnu við alla hagsmunaaðila svo að fyrirlögn nýrra prófa hafi sem minnst áhrif á nemendur og skipulag skólastarfs í efri bekkjum grunnskóla.

 • Hvenær þurfa nemendur að ákveða hvort þeir þreyti aftur próf?

  Einkunnir nemenda munu birtust í Skólagátt föstudaginn 13. apríl og nemendur hafa fram til 23. apríl til að ákveða hvort þeir þreyti prófin. Ef þeir ákveða, í samráði við foreldra/forráðamenn að taka ekki prófin aftur, þurfa foreldrar að skrifa undir undanþágubeiðni hjá skólastjóra.  

 • Hvaða viðbragðsáætlun verðið þið með á prófdögum?

  Menntamálastofnun hefur gert viðbragðsáætlun þar sem fram koma viðbrögð við hugsanlegum vandamálum. Ekki verður hægt að leggja prófin fyrir á pappír ef rafrænt umhverfi prófsins liggur niðri. Ef upp koma stórkostleg vandamál í fyrirlögninni verður prófið blásið af. Reynt verður eftir fremsta megni að sjá til þess að upplýsingar berist skólum eins fljótt og hægt er, m.a. í gegnum tölvupóst og Facebook-síðu stofnunarinnar.  

 • Af hverju er bara hægt að taka prófin þessar tvær vikur?

  Ákvörðun um prófatíma var tekin á fundi hagsmunaaðila, Menntamálastofnunar og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Horft var til tæknilegra útfærslna, próffræðilegra ástæðna og hagsmuna skóla og nemenda.  

 • Hvernig verða nýju prófin í 9. bekk - verður efni úr prófunum frá mars 2018?

  Búin verða til ný próf. Notast verður við prófatriði frá árinu 2017 og annað efni. Verið er að setja saman ný próf og því liggur ekki fyrir endanlegt val á prófatriðum. 

  Eins og áður verða búin til tvö sambærileg próf í hverri námsgrein. Þyngd prófanna verður metin og unnið eftir próffræðilegum aðferðum. Nokkur sett af prófum verða lögð fyrir, til að auka áreiðanleika við próftöku.

 • Hvernig verður unnið með niðurstöður prófanna fyrir 9. bekk í mars 2018?

  Úrvinnsla mun fara fram á niðurstöðum prófanna. Próftaka fyrir marga var ófullnægjandi og ljóst að niðurstöður hjá mörgum nemendum gáfu ekki rétta mynd af hæfni nemenda. Teknar verða saman hæfnieinkunnir nemenda og yfirlit yfir hversu mörgum atriðum þeir svöruðu rétt á hverjum þætti. Eftir samráðsferli við aðila skólasamfélagsins (nemendur, félag kennara, félag skólastjóra, Heimili og skóla og fleiri) var ákveðið að raðeinkunnir, meðaltöl fyrir skóla og svæði og landsmeðaltöl yrðu ekki teknar saman. Það sama var látið ganga yfir prófin í íslensku, stærðfræði og ensku.

 • Fá allir einkunnir úr prófunum sem tekin voru í mars 2018?

  Þeir nemendur sem náðu að svara/ljúka 80% prófatriða á prófum í íslensku og ensku fá afhentar einkunnir. Allir nemendur munu hins vegar sjá svör sín í sýnisprófi og þannig geta þeir farið yfir svörin á prófunum. Nemendur munu þannig sjá rétt svör, röng svör og hvaða prófatriðum þeir svöruðu ekki (eyður).

  Það eru nokkrar ástæður fyrir því að miðað er við 80%. Í fyrsta lagi er mikilvægt að sem flestir sem tóku prófið fái niðurstöðu. Það hefur verið ósk nemenda að fá niðurstöður. Rætt var um að afhenda einungis þeim niðurstöðu sem náðu að klára allt prófið og ýttu á „senda“ í lokin, þ.e. þeim sem luku 100% af prófinu. Sanngjarnt þótti að veita fleirum aðgang að niðurstöðum sínum.

  Álitið er að próffræðilega sé mikilvægt að miða við 80% þannig að nemendur sem náðu að ljúka stærstum hluta prófsins, fái einkunn. Lítill hópur nemenda náði að ljúka 50% til 80% af prófinu og ekki er talið að próftaka hafi verið fullnægjandi hjá þeim hópi og því ekki viðeigandi að birta formlega einkunn eða niðurstöður við slíkar aðstæður. Til dæmis þótti ekki viðeigandi að reikna niðurstöðu ef nemandi lauk 50% prófatriða.

  Þá er tekið fram að ekki er ljóst hvaða aðstæður voru við próftöku í íslensku og ensku hjá hverjum nemanda. Þess vegna er mikilvægt að nemendur sjálfir fái að sjá svör sín og fer það fram með svokölluðu sýnisprófi. Sýnispróf geta nemendur og foreldrar séð hjá skólanum sínum en það fer fram í gegnum ákveðið tölvukerfi.

  Þeir sem tóku próf í stærðfræði í mars 2018 fá allir niðurstöður prófanna.

 • Geta nemendur fengið upplýsingar um niðurstöður prófanna áður en þeir taka ákvörðun um hvort þeir vilji þreyta próf að nýju?

  Já, nemendur munu fá niðurstöður úr prófunum áður en þeir taka ákvörðun um hvort þeir vilji þreyta próf að nýju. Áætlað er að nemendur fái niðurstöður sínar um miðjan apríl. 

 • Hvenær munu ný próf fara fram?

  Endurfyrirlögn samræmdra könnunarprófa fer fram á tveggja vikna tímabili í vor og viku tímabili í haust: 

  Vor: 30. apríl - 11. maí.

  Haust: 7. - 14. september 

  Prófin í íslensku og ensku verða haldin á tilteknum dögum sem skólar geta valið á milli. Þá munu skólar einnig hafa val um á hvaða tíma dags prófin verða lögð fyrir. Velja þarf sama prófatímabil, vor eða haust, fyrir bæði prófin.

   

 • Talað er um að prófin verði í vor og aftur í haust. Geta nemendur tekið prófin tvisvar á þessu tímabili?

  Ekki verður heimilt að taka prófin oftar en einu sinni. 

 • Ef nemandi í 9. bekk tók próf í mars og síðan aftur í lok apríl, hvor einkunnin mun gilda?

  Til að tryggja jafnræði milli nemenda var ákveðið að nemendum væri veitt endurgjöf fyrir þau próf sem þeir náðu að klára í mars 2018 en einnig verði nemendum heimilt að þreyta próf að nýju.  

  Ákveðið var að þeir nemendur sem fara í próf að nýju munu fá nýja einkunn og muni sú einkunn gilda. Þannig munu nemendur ekki eiga rétt á tvöföldu námsmati í sömu námsgrein í könnunarprófum í 9. bekk. Ef nemandi þreytir próf að nýju, til dæmis íslenskupróf eða enskupróf, mun einkunn úr nýja prófinu verða aðaleinkunn úr prófunum og fyrri einkunn fellur niður.  

 • Mega nemendur ráða því hvort þeir fari í nýju könnunarprófin sem verða vorið 2018 og haustið 2018?

  Gerð hefur verið tímabundin breyting á reglugerð um framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa til að auka svigrúm fyrir val nemenda um próftöku og tímasetningu prófa. Öllum býðst svo að þreyta sambærileg könnunarpróf að nýju, enda er það lögbundin skylda menntamálayfirvalda að bjóða nemendum mat á námsstöðu sinni. Þeir nemendur sem kjósa, að höfðu samráði við forráðamenn, að taka ekki umrædd próf aftur verða leystir undan prófskyldu. Þessi leið var valin þar sem hún er talin sanngjörnust fyrir nemendur.

  Grunnskólasamfélag verður upplýst reglubundið um könnunarprófin.

 • Hvernig verður fyrirlögn háttað – verður það Menntamálastofnun eða skólar sem sjá um skráningu?

  Fyrirlagnarferlið verður með óbreyttu sniði. Skólar munu hafa meira val um fyrirlagnartíma og nemendur/forráðamenn hafa val um hvort nemandi fer í prófin. Eins og áður fer próftaka fram í gegnum prófakerfi, skólar fá prófkóða senda og fleira slíkt. Prófin munu vera rafræn. Eins og í fyrri fyrirlögn verða mikilvægar upplýsingar sendar skólunum með reglulegum hætti, haldnir fjarfundir fyrir starfsmenn skóla og fleira slíkt. Síðar mun koma í ljós hversu margir nemendur taka próf en ekki er ólíklegt að færri taki prófið núna, þar sem val um próftöku er fyrir hendi.

  Ljóst er að fyrirlögn nýju prófanna mun raska skólastarfi og starfsmenn skóla eiga krefjandi og vandasamt starf fyrir höndum að koma fyrirlögn prófanna fyrir og hafa umsjón með framkvæmd þeirra. Starfsmenn Menntamálastofnunar munu eiga náið samstarf við skólastjóra, kennara og aðra starfsmenn skóla til að undirbúningur og framkvæmd gangi sem farsælast.

 • Verður þetta samræmt könnunarpróf ef skólar eru að leggja prófin fyrir hver á sínum tíma?

  Fyrir liggur að það verða nokkrar útgáfur af könnunarprófum notaðar og því verður minni hætta á að nemendur hafi séð eða heyrt af prófatriðum. Hins vegar var það samkomulag haghafa að áherslan á samræmt könnunarpróf yrði ekki í forgrunni heldur yrði lögð áhersla á að veita nemendum endurgjöf. Þá er einnig ljóst að Menntamálastofnun hefur ekki tök á því að semja og forprófa ný prófatriði á þeim tíma sem er til stefnu.  

  Á sama hátt er ljóst að prófin verða ekki fullkomlega samræmd ef sumir skólar leggja þau fyrir í lok apríl/byrjun maí og aðrir í september, þar sem aldur nemenda hefur breyst og nemendur hafa fengið mislangan tíma til að undirbúa sig.

  Með samkomulagi við haghafa var ákveðið að hafa ekki samræmt próf heldur yrði einblínt á að leggja fram könnunarpróf fyrir nemendur. Ennfremur yrðu ekki reiknaðar raðeinkunnir, meðaltöl skóla eða meðaltöl landsins. Einblínt yrði á að veita nemendum sjálfum endurgjöf en ekki vera með dýpri próffræðilega úrvinnslu.

 • Getur prófakerfið klikkað aftur?

  Prófakerfið er rafrænt og því er ekki hægt að fullyrða að vandamál geti ekki komið upp.  Aldrei verður hægt að koma í veg fyrir alla hnökra. Til dæmis geta nettengingar í einstökum skólum fallið niður, einstaka tölvur í skólum geta bilað og upp komið stærri vandamál.  

  Menntamálastofnun og þjónustuaðilar hennar munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að allt gangi vel.

  Nú liggur fyrir samráðsferli um framtíð og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Ekki er unnt að breyta fyrirkomulagi prófa eða fara í útboð á stóru nýju prófakerfi fyrr en þessu samráðsferli lýkur. 

 • Er hægt að kalla þessi próf samræmd ef nemendur taka þau ekki á sama tíma og það líða jafnvel nokkrir mánuðir á milli fyrirlagna?

  Vegna fyrirkomulags prófanna í vor og haust er gerður fyrirvari um samræmingu og samanburðargildi þeirra. Lögð verður áhersla á endurgjöf til nemenda með hæfnieinkunn en ekki teknar saman heildarniðurstöður og meðaltöl.  

 • Hvað ef nemandi sem hefur sótt um undanþágu ákveður að hann vill taka próf eftir að viðkomandi skóli hefur lagt fyrir prófin. Getur skólinn lagt prófið fyrir hann seinna á tímabilinu?

  Nei, nemendur hafa tíma til 23. apríl til að ákveða hvort þeir taka prófið. Eftir að sá tími er liðinn er ekki hægt að skrá sig í próf.  

 • Hver mun bera þann aukakostnað sem leggst á skólana við þessa auka fyrirlögn?

  Ekki liggur fyrir niðurstaða varðandi það en verið er að skoða þetta mál í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneyti.  

 • Verða niðurstöður teknar saman eins og áður?

  Engin opinber birting verður á heildarniðurstöðum úr prófum í íslensku og ensku sem fram fóru þann 7. og 9. mars sl. né vegna fyrirhugaðrar endurfyrirlagnar í apríl/maí og september n.k. sökum annmarka sem upp komu við fyrirlögn prófsins í mars 2017. 
  Gert er ráð fyrir að birta heildarniðurstöður úr prófi í stærðfræði sem haldið var þann 8. mars sl. í Skólagátt um miðjan apríl. 
   

 • Hvað ef skólinn vill ekki leggja fyrir prófin?

  Samkvæmt reglugerð nr. 173/2017 með síðari breytingum sbr. 315/2018 ber skólanum skylda til að leggja prófin fyrir, annaðhvort að vori eða hausti, og gefa þannig nemendum sínum kost á að þreyta prófin aftur.  

 • Þarf að sækja um undanþágur aftur fyrir þá sem fengu undanþágu í mars?

  Nei, þær undanþágur standa.   

 • Hvað ef upp koma vandamál í skólanum og nemendur geta ekki tekið prófið? Fær skólinn að leggja fyrir annan dag?

  Já, Menntamálastofnun mun koma til móts við skóla ef vandamál koma upp.  

 • Hvað ef nemandi sem vill taka prófin hefur sótt um leyfi á þessu tímabili? Getur hann fengið að taka próf á öðrum tíma.

  Svar: Nei, skólar ákveða tvo daga í vor eða haust til að leggja fyrir prófin. Ekki er unnt að leggja próf fyrir einstaka nemendur aðra daga en skólinn hefur ákveðið.  

 • Fá framhaldsskólar sendar einkunnir?

  Menntamálastofnun sendir ekki einkunnir samræmdra könnunarprófa til framhaldsskóla.
  Gerðar verða breytingar á reglugerð 1150/2008 þar sem heimild til að taka mið af niðurstöðum samræmdra könnunarprófa við innritun nemenda í framhaldsskóla verður felld á brott.
   

 • Hvað verður um gögnin hjá þeim nemendum sem náðu ekki að klára próf?

  Allar prófaniðurstöður eru á læstu svæði sem einungis Menntamálastofnun hefur aðgang að.  

 • Hvernig sækja foreldrar um undanþágur frá prófunum?

  Með sama hætti og áður. Bætt hefur verið við eyðublaðið þeim valkosti að sækja um undanþágu frá prófnum vor eða haust 2018.  

 • Hvað verður um gögn þeirra nemenda sem náðu að klára prófið en vilja hvorki nýta niðurstöður né sjá einkunnir sínar?

  Allar prófaniðurstöður eru á læstu svæði sem einungis Menntamálastofnun hefur aðgang að. 

 • Af hverju á ég sem foreldri að taka ákvörðun um það hvort barnið mitt tekur prófin aftur?

  Vegna annmarka á fyrirlögn íslensku og enskuprófs í mars sl. var reglugerð nr. 173/2017 rýmkuð þannig að hægt yrði að sækja um undanþágu byggt á ástæðum sem rekja má til þessara annmarka. Ákvörðun skal tekin í samráði barns við foreldra sína. Það er foreldris/forráðamanns hvers barns að sækja um undanþágu frá prófi þar sem nemandinn gerir það ekki sjálfur vegna aldurs. 
  Hafa skal í huga að prófin eru fyrst og fremst matstæki fyrir nemendur til að sjá stöðu sína og fyrir foreldra og skóla til að hjálpa nemendum í námi.  

 • Ef hægt er að leggja prófin fyrir yfir ákveðið tímabil núna, er eitthvað því til fyrirstöðu að hafa sama háttinn á í framtíðinni?

  Ekki er ljóst hvað framtíðin ber í skauti sér hvað varðar samræmd könnunarpróf. Vinnuhópur sem skipaður var af ráðherra í mars sl. mun móta stefnu hvað varðar framtíðarfyrirkomulag prófanna. Áætlað er að sá hópur skili tillögum sínum til ráðherra fyrir árslok 2018.  

 • Ef fáir nemendur vilja endurtaka prófin, væri hægt að sameina þá á hlutlausum stað til að valda sem minnstu raski í skólum?

  Skólarnir bera ábyrgð á að leggja prófin fyrir nemendur sína svo ekki er möguleiki að halda prófin annars staðar.   

 • Er sanngjarnt að sumir taki prófin í vor en aðrir í haust?

  Allir þeir sem taka prófin í vor og haust fá úthlutuð prófum sambærilegum þeim sem lögð voru fyrir í mars. Það var ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra að bjóða upp á slíkan sveigjanleika fyrir skólana að halda prófin að vori eða hausti. Vert er að nefna að prófin eru ekki hugsuð sem samkeppnispróf/hagsmunapróf heldur sem stöðutaka hjá hverjum nemanda, hvar veikleikar hans og styrkleikar liggja svo hægt sé að nýta niðurstöðurnar til úrbóta á næsta skólaári nemandanum í hag.   

 • Verður reglugerðarbreytingin til frambúðar, þ.e. verða samræmd könnunarpróf áfram valkvæð í framtíðinni eða bara í þessari fyrirlögn?

  Að svo búnu er reglugerðarbreytingin tímabundin. 

 

Fyrirlögn samræmdra könnunarprófa í 9. bekk í mars 2018

 • Hver ber ábyrgð á þessum vandamálum?

  Menntamálastofnun ber ábyrgð á framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskólum.

  Stofnunin biður nemendur, foreldra, kennara, skólastjórnendur og aðra viðkomandi innilega afsökunar á þeim mistökum sem urðu við fyrirlögn samræmdra könnunarprófa í íslensku og ensku. 

 • Hvað gerðist með samræmd könnunarpróf?

  Þjónustuaðili prófakerfis Menntamálastofnunar, bandaríska fyrirtækið Assessment Systems, hefur viðurkennt að villa sem kom upp í gagnagrunni stofnunarinnar í Evrópu hafi valdið því að rof varð á þjónustu við þá rúmlega 4.000 nemendur sem þreyttu prófin á Íslandi. Það varð til þess að margir nemendur komust ekki inn í prófin, urðu frá að hverfa eða svöruðu prófinu við óviðunandi kringumstæður. Þannig aðstæður viljum við ekki að íslenskir nemendur búi við og mun Menntamálastofnun gera allt sem í hennar valdi stendur til að slíkt komi ekki fyrir aftur.

 • Nú hafið þið valdið nemendum, foreldrum og skólum vonbrigðum – hvað ætlið þið að gera í því?

  Eins og fram hefur komið í fréttatilkynningum og í fjölmiðlum þá harmar Menntamálastofnun hvernig fyrirlögn prófanna fór. Það eru gífurleg vonbrigði að þessi vandamál komu upp og Menntamálastofnun mun ekki að skorast undan ábyrgð.

  Menntamálastofnun vinnur ákveðið að úrlausnum og mun leggja fram tillögur um úrbætur sem taka mið að hagsmunum nemenda og skólasamfélagsins. Næstu daga verða settar fram upplýsingar um stöðu mála og lögð fram gögn um fyrirlögn prófanna. Áfram verður haft samráð við mennta- og menningarmálaráðuneytið, Skólastjórafélag Íslands, Félag grunnskólakennara, ungmennaráð Menntamálastofnunar, Umboðsmann barna, nemendur og fleiri aðila.

  Lögð verður áhersla á að hafa hagsmuni og velferð nemenda að leiðarljósi í því ferli sem er fram undan. Á samráðsfundi með fulltrúum nemenda, umboðsmanni barna, ungmennaráði Menntamálastofnunar og fleiri aðilum komu fram óskir um að nemendur fengju niðurstöður úr prófum og að þeir ættu val um að þreyta próf að nýju. Þessi sjónarmið voru tekin til greina. 

  Menntamálastofnun mun kappkosta að eiga gott samtal við alla hlutaðeigandi aðila og setja fram valkosti og úrlausnir.   

 • Hvað segir þjónustuaðilinn um mistökin?

  Eftirfarandi er yfirlýsing sem barst frá David Saben, forstjóra Assessment Systems:

  As a company, we believe in corporate responsibility and transparency. To this end, we conducted an extensive review of the two incidents. The issues seem to lay in a series of database errors.
  Database management is essential in our ability to deliver millions of exams.
  During our provision of our EU-Iceland server, our technology team selected to change database management services.
  This was a spectacular failure.  I am deeply sorry. We have taken appropriate action to ensure constant database management on our EU-Iceland server.

  Yfirlýsingin þýdd á íslensku:

  Sem fyrirtæki trúum við á ábyrgð og gagnsæi. Vegna þessa, þá voru gerðar umfangsmiklar skoðanir á þessum atvikum. Vandamálin virðast liggja í gagnagrunnsvillum.
  Gagnagrunnsstýringar eru nauðsynlegar til að geta lagt fyrir milljónir prófa.
  Þegar Evrópu-Íslandsþjónninn var skilgreindur þá valdi tækniteymið okkar að breyta þjónustum á gagnagrunnsstýringu.
  Þetta voru stórkostleg mistök. Ég biðst innilega afsökunar. Við höfum nú þegar gert viðeigandi ráðstafanir til að tryggja stöðugar gagnagrunnsstýringar á Evrópu-Íslandsþjóninum okkar.

 • Af hverju eru þið með samning við þennan þjónustuaðila?

  Undirbúningur innleiðingar rafrænna prófa hófst í lok árs 2015. Við athugun á rafrænum prófakerfum var ekki til kerfi á Íslandi af þeirri stærðargráðu sem þurfti. Nokkur kerfi voru skoðuð og tvö þeirra prófuð. TAO frá Open Assessment Systems  krafðist mikillar forritunar og uppsetningar sem hefði haft mikinn kostnað í för með sér. FastTest prófakerfið frá Assessment Systems kom vel út í prófunum og þar var töluverð reynsla af því að leggja rafræn próf fyrir stóra hópa auk þess sem kerfið bauð upp á einstaklingsmiðuð próf.

  Fyrsta fyrirlögn rafrænna könnunarprófa var haustið 2016 og gekk hún í heildina vel þrátt fyrir ýmsa annmarka. Haustið 2017 lauk innleiðingu með fyrirlögn í 4. og 7. bekk sem gekk mjög vel. Samantekt og skýrslur vegna innleiðingar er að finna hér.  

  Á árinu 2017 var ákveðið að hefja vinnu að útboði fyrir prófakerfi en notast við FastTest prófakerfið á meðan. Útboðsgögn voru útbúin en ákveðið var að bíða aðeins með að hefja útboð þar sem umræða var um stefnumótun vegna samræmdra könnunarprófa til næstu fimm ára. Þess vegna var gerður áframhaldandi samningur til eins árs við Assessment Systems. Góð reynsla hafði verið af þessu kerfi og ekki ástæða til að ætla að svo alvarleg bilun yrði í prófakerfinu.  

 • Af hverju geta netþjónar prófakerfisins, sem Menntamálastofnun notar, ekki verið staðsettir á Íslandi? Hver ákveður þessi viðskipti?

  Netþjónninn sem hýsir gagnagrunninn fyrir prófakerfið og úrvinnslu prófanna er staðsettur á Írlandi. Netþjónninn er leigður af Amazon. Amazon netþjónninn fyrir Evrópu er hýstur á Írlandi og er öflugasti þjónustuaðilinn á þessu sviði. Assessment Systems taldi því að Írland væri besti kosturinn til að hýsa vefþjóninn. Til samanburðar er Netflix í Evrópu hýst hjá Amazon á Írlandi. Upplýsingar um Assessment Systems má sjá á vef fyrirtækisins. Í samningum Menntamálastofnunar við þjónustuaðilann var það gert að skilyrði, í samræmi við lög um persónuvernd, að netþjónninn yrði staðsettur í Evrópu.

 • Datt engum í hug að prófa hugbúnaðinn áður en hann var notaður?

  Prófakerfið frá Assessment Systems hafði verið notað við þrjár fyrirlagnir áður en þetta vandamál kom upp. Við fyrirlögn samræmdra könnunarprófa haustið 2016, fyrirlögn vor 2017 og fyrirlögn haust 2017. Til að mynda var prófið lagt fyrir tvo árganga vorið 2017 þegar bæði 9. og 10. bekkingar þreyttu prófið á sama tíma. Þá reyndi töluvert á prófakerfið þar sem 7.385 nemendur þreyttu enskupróf, 7.363 þreyttu íslenskuprófið en 7.358 nemendur stærðfræðiprófið. Prófakerfið var álagsprófað fyrir þær fyrirlagnir.  

 • Hver er tæknilegur munur á kerfinu núna og við síðustu samræmd próf þegar allt gekk vel? Var verið að skipta yfir á nýja þjóna eða þjónustuaðila? Voru þessir þjónar erlendis einnig síðast? Voru aðrar breytingar sem eiga við.

  Það er enginn tæknilegur munur á kerfinu núna og við fyrri fyrirlagnir. Notast var við sama netþjón og í hinum þremur fyrirlögnunum og hefur hann alltaf verið erlendis. Verið er að vinna og greina vandamálið og hvað olli þessu. Nánari upplýsingar um tæknilega örðugleika verða birtar þegar úttekt óháðra aðila hefur verið lokið.

 • Af hverju var íslenskuprófinu ekki frestað strax þegar vandamálin komu upp?

  Menntamálastofnun setti strax í gang viðbragðsáætlun og lögð var áhersla á að upplýsa skóla og aðra hagsmunaaðila um stöðuna. 

  Upplýsingar sem bárust til Menntamálastofnunar í byrjun voru á þá leið að próftaka hjá sumum gengi vel, aðrir nemendur væru að missa samband við prófakerfið og enn aðrir kæmust ekki inn í prófið. Enn fremur sagði þjónustuaðili okkur á sama tíma að þeir væru mögulega að komast fyrir vandann.

  Menntamálastofnun hefur aldrei þurft að fresta eða fella niður próf og mikið álag var því til staðar. Um kl. 10 á miðvikudag, þegar umfang vandans var ljóst, var ákveðið að fresta prófinu. Ákvörðun um frestun á prófi á föstudeginum kom fyrr og var afdráttarlausari.

  Framkvæmd samræmdra könnunarprófa fer eftir ákveðnum lögum og reglugerðum sem verður að hafa til hliðsjónar þegar ákvörðun um frestun er tekin – sjá nánar hér. Menntamálastofnun mun fara yfir allt ferlið og endurskoða allar viðbragðsáætlanir. 

 • Hvernig dettur ykkur í hug að hafa ekki plan B? Af hverju er ekki próf á pappírsformi sem hægt er að grípa til eða önnur úrræði?

  Samræmd könnunarpróf hafa þrisvar sinnum áður verið haldin með rafrænum hætti með þessu prófakerfi auk þess sem æfingapróf var haldið vorið fyrir fyrsta rafræna prófið. Þá hafa rafræn kynningarpróf verið sett á heimasíðu Menntamálastofnunar og ennfremur hafa verið lögð fyrir rafræn forpróf.

  Við allar fyrirlagnir hefur verið viðbragðsáætlun eða plan B.  

  1. Þau tæknilegu vandamál sem komu upp í prófunum núna var ekki hægt að koma í veg fyrir með plani B. Fyrirliggjandi upplýsingar um tæknilegu vandamálin benda til þess að vandamálin hafi verið þess eðlis að gagnagrunnstýring væri ekki rétt og ljóst að stærri netþjónar eða önnur plön hefðu ekki komið í veg fyrir vandamálin. Tæknileg vandamál sneru ekki að prófunum sem slíkum eða innihaldi þeirra heldur stýringu á netþjónum. Varanetþjónn og endurræsing gat ekki leyst hin tæknilegu vandamál. 
  2. Álagsgeta prófakerfis hefur áður verið staðfest í fyrirlögn 2016 og árið 2017. Við prófaframkvæmd um haustið 2016 var ekkert sem benti til þess að prófakerfið réði ekki við það álag sem varð þegar um 4.000 nemendur skráðu sig inn. Það stóðst og ekki komu upp nein álagsvandræði. Í marsprófum 2017 og septemberprófunum 2017 var góð sátt um keyrslu prófakerfisins og almennt með framkvæmdina. Í mars 2017 komu rúmlega 6000 nemendur í rafrænt próf á sama degi. Í ljósi þessarar reynslu á fyrirlögnum prófa og yfirlýsinga þjónustuaðilans um góðan undirbúning var ekki von á svo alvarlegum bilunum, eins og raunin varð við próftökuna í mars 2018. 
  3.  Í samningum um prófakerfið voru gerðar þær kröfur á þjónustuaðilann að prófakerfið væri fullnægjandi og stæðist það álag. Þrír aðilar frá Assessment Systems komu til Íslands í febrúar 2018 og lýstu yfir hvernig prófun á kerfinu hefði farið fram og væri fullnægjandi. Ennfremur fóru þessir aðilar með rafræn próf í nokkra skóla og áttu samtal við skólafólk á Íslandi um fyrirlögn. Því miður reyndist þetta ekki fullnægjandi.
  4. Ekki var hægt að hafa pappírspróf tilbúin þegar hin tæknilegu vandamál komu upp. Haustið 2016 þegar prófin voru lögð fyrir í fyrsta skipti rafrænt var útbúin varaleið með prentútgáfum sem hægt var að grípa til ef eitthvað færi úrskeiðis. Þá var skólum send prófin og prófatriði. Það er vandasamt að nota þessa leið í þeim tæknilegum örðugleikum sem komu fram núna. Til dæmis getur skóli með 100 nemendur ekki prentað úr margra blaðsíðna próf á sama tíma og nemendur bíða. Þá er erfitt að bregðast við ef nemandi er byrjaður að svara og hefur klárað hluta prófsins rafrænt. Þá getur aðstaða í skólum og viðbragðsáætlun verið vandasöm í framkvæmd.
  5. Hjá Assessment Systems fór eftirfarandi plan B í gang:
  • Tæknimenn voru kallaðir út og stóðu vaktina á meðan fyrirlögn stóð yfir.
  • Þeir fylgdust jafnframt með umferð og álagi.
  • Afkastageta kerfanna var aukin umtalsvert en því miður dugðu þessar aðgerðir ekki til að komast fyrir vandamálið.