Spurt og svarað

 

Almennt um samræmd könnunarpróf

 • Hver er tilgangur samræmdra könnunarprófa?

  Hlutverk og markmið samræmdra könnunarprófa er í raun margþætt. Í lögum um grunnskóla, aðalnámskrá og reglugerð er fjallað um námsmat og samræmd könnunarpróf. Í 3. gr. reglugerðar nr. 173/2017 segir:

  „Tilgangur samræmdra könnunarprófa í grunnskólum er að:

  1. athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í við­kom­andi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,
  2. vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda,
  3. veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,
  4. veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar og skólakerfið í heild stendur í þeim náms­greinum og námsþáttum sem prófað er úr.

  Niðurstöður prófa skulu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt. Menntamálastofnun skal nýta niðurstöður prófa til að stuðla að umbótum og þróun í skóla­starfi.

  Eins og hér kemur fram er samræmdum könnunarprófum ætlað að vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda og veita menntayfirvöldum upplýsingar.

  Niðurstöður samræmdra könnunarprófa eru eingöngu aðgengilegar nemandanum sjálfum, forráðamönnum hans og kennaranum.

  Samræmd könnunarpróf meta ólíka námsþætti en þau meta ekki alla þætti. Til dæmis metur íslenskuprófið málnotkun, lesskilning og fleiri þætti sem veita vísbendingu um hvort kennslan hafi skilað árangri. Í hverju prófi er ákveðinn fjöldi prófatriða úr hverjum námsþætti sem gefur vísbendingu um námsstöðu nemandans í þeim þætti sem verið er að prófa úr í því fagi. Prófið veitir ekki heildarmynd af námslegri stöðu viðkomandi en er einn af mörgum þáttum sem geta byggt upp mynd af námsstöðu nemandans. Þannig fær nemandinn niðurstöðu úr hverjum námsþætti og fær til dæmis einhvern samanburð við árangur jafnaldra sinna (með raðeinkunn). Skólar fá, eftir að prófum lýkur, upplýsingar um árangur síns skóla í viðkomandi námsgreinum sem birtar eru í sérstökum skýrslugrunni (skyrslur.mms.is). Þar birtist árangur hvers skóla miðað við meðaltal alls árgangsins á öllu landinu. Ávallt er um að ræða niðurstöður heildarinnar (þ.e. skólanna). Aldrei árangur hvers og eins nemanda. 

 • Af hverju samræmd könnunarpróf?

  Samkvæmt 39. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 skal mennta- og menningarmálaráðuneytið standa fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum með því að leggja fyrir samræmd könnunarpróf. Í lögunum segir að leggja eigi fyrir samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla en nemendur á unglingastigi skuli þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. 

  Samkvæmt lögum um samræmd könnunarpróf er tilgangur þeirra að athuga hvernig hæfnimarkmiðum aðalnámskrár hefur verið náð, vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda, veita upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda og veita upplýsingar um skólakerfið í heild í ákveðnum námsþáttum.

  Nánari útfærslu á samræmdum könnunarprófum er hægt að sjá í reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla nr. 173/2017. Með reglugerðinni er ákveðið að samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk fari fram að hausti (september) en prófin í 9. bekk fari fram að vori (mars). 

  Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Menntamálastofnun umsjón með gerð og framkvæmd samræmdra könnunarprófa eins og nánar er kveðið á um í fyrrgreindri reglugerð. 

 • Hvert er innihald samræmdra könnunarprófa?

  Samræmd könnunarpróf reyna á kunnáttu, hæfni og leikni nemenda í íslensku, ensku og stærðfræði. Prófin eru samin út frá matsviðmiðum aðalnámskrár en horfa einnig til hæfniviðmiða hennar.

  Spurningar í prófunum eru búnar til af reyndum kennurum og sérfræðingum í prófagerð. Allar spurningar prófsins eru byggðar á námsefni og námsmarkmiðum sem eru tilgreind í aðalnámskrá. Aðalnámskrá leggur áherslu á kunnáttu, hæfni og leikni nemenda en ekki ákveðin afmörkuð efnisatriði. Þannig er ekki gefinn út sérstakur listi af atriðum heldur lögð fram fjölbreytt próf sem reyna á ólíka kunnáttu, hæfni og leikni. Rétt er að taka fram að námshraði einstakra nemenda er breytilegur og hæfni mismunandi.

  Þess vegna byggjast könnunarprófin á prófatriðum sem gefa nemendum með mismikla færni tækifæri til að sýna hvað í þeim býr, atriði sem spanna fjölbreytileg viðfangsefni og eru ólík að þyngd. Í prófunum verða bæði létt prófatiði og erfið prófatriði, sem reyna á fjölbreytta færni nemenda og henta nemendum með ólíka getu. Ekki er notast við spurningar sem reyna á utanbókarlærdóm og beinar þekkingarspurningar. 

  Samræmt könnunarpróf í íslensku metur getu og hæfni nemanda til að skilja texta sem hann les og metur færni hans í notkun íslensks máls. Prófið reynir á skilning nemandans á atriðum er fram koma í textanum, bæði með beinum og óbeinum hætti. Einnig reynir á getu hans til að greina framvindu textans og hlutverk afmarkaðra hluta hans, finna markmið höfundar með textanum og skoðanir hans, greina stílbrigði og eiginleika textans. Jafnframt mun reyna á skilning nemandans á málinu, bæði með verkefnum tengdum textum og stökum prófatriðum.

  Samræmt könnunarpróf í ensku metur getu og hæfni nemanda til að skilja ritaðan texta á ensku. Prófið reynir á skilning nemandans á efnisatriðum textans, bæði með beinum og óbeinum hætti. Einnig reynir á getu hans til að greina framvindu textans og hlutverk afmarkaðra hluta hans og þær skoðanir sem fram koma í textanum. Jafnframt mun reyna á málnotkun og orðskilning í prófinu.

  Samræmt könnunarpróf í stærðfræði metur getu og hæfni nemanda til að kljást við og leysa viðfangsefni á sviði almennra reikningsaðferða, hlutfalla og prósenta, mynsturs og algebru og rúmfræði í ólíkum viðfangsefnum. Verkefnin eru ýmist fjölval eða opin og reyna á að nemendur sýni vald á grunnatriðum, geti unnið með flóknari stærðfræðileg viðfangsefni og hafi gagnrýnt hugarfar gagnvart viðfangsefnum stærðfræðinnar.

  Á vef Menntamálastofnunar er hægt að sjá kynningarpróf og önnur próf. Þar má sjá dæmi um innihald samræmdra könnunarprófa. 

 • Hver er lagalegur munur á námsmati skóla og samræmdum könnunarprófum?

  Í aðalnámskrá grunnskóla, sjá auglýsingu nr. 760/2011, ásamt síðari breytingum, sbr. auglýsingar nr. 838/2015 og nr. 894/2016, kemur fram að námsmat í hverri námsgrein er í höndum viðkomandi kennara skv. nánari leiðsögn í námskránni og skólanámskrá viðkomandi skóla.

  Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 eiga nemendur og foreldrar þeirra rétt á upplýsingum um niðurstöður námsmats, matsaðferðir og matstæki, þar með talið að skoða metin verkefni og prófúrlausnir. Þá segir að þeir eigi jafnframt rétt á munnlegum skýringum á námsmati og að niðurstaða námsmats sæti endurskoðun innan grunnskólans. Tekið er fram að slík endurskoðun teljist ekki ígildi stjórnsýslukæru í skilningi stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. 47. gr. laganna segir að ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda sem teknar eru á grundvelli laganna séu kæranlegar til ráðherra. Frá þeirri meginreglu er gerð sú undantekning í 2. mgr. 47. gr. laganna að ákvarðanir um námsmat sæta ekki kæru til ráðherra. Hvorki endurskoðunarheimild 3. mgr. 27. gr. né almenn kæruheimild 1. mgr. 47. gr. laganna eiga þó við um samræmt námsmat þar sem framkvæmd samræmdra könnunarprófa er á hendi ráðherra.

  Af lestri ákvæða 39. gr. grunnskólalaga um samræmt námsmat, reglugerðar um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla, nr. 173/2017 og aðalnámskrá grunnskóla má draga þá ályktun að niðurstöður samræmdra könnunarprófa hafi engin áhrif á niðurstöður almenns námsmats skv. 27. gr. grunnskólalaga og veiti engin sérstök réttindi t.d. til frekara náms, þótt þau kunni á hinn bóginn að vera meðal þeirra gagna sem nemandi getur látið fylgja með umsókn sinni um skólavist í framhaldsskóla, sbr. 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1150/2008.

  Samræmd könnunarpróf hafa engu að síður þann tilgang að veita nemendum endurgjöf um stöðu þeirra í viðkomandi námsgrein, með það að markmiði að nemendur eigi þess kost að bæta námsárangur sinn fyrir lok grunnskóla. 

 • Eru samræmd könnunarpróf besta námsmatið?

  Almennt má segja að meginþorri þess námsmats sem fram fer í grunnskólum sé í höndum kennara í hverjum bekk eða skóla fyrir sig. Námsmatið er breytilegt frá einum skóla til annars, oft er það breytilegt milli kennara innan skóla, frá einu ári til annars og að auki er umgjörð þess, umfang, fyrirgjöf og framkvæmd mjög breytileg. Líta má á þetta sem innra námsmat skóla. Kostirnir við innra námsmat eru sveigjanleiki, til dæmis er unnt er að sníða það eftir þörfum, nemendahóp, áherslum og efnistökum hverju sinni og fleiri þáttum. Ókostirnir eru að niðurstöður matsins eru ekki sambærilegar hjá nemendum í ólíkum skólum eða milli námsgreina. Í aðalnámskrá er lögð áhersla á að námsmat sé fjölbreytt og endurgjöf til nemenda byggist á mismunandi aðferðum, til dæmis munnleg verkefni, verkleg, skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar, einstaklingsverkefni, hópverkefni, verkefnamöppur, rafræn verkefni, próf og fleira.

  Samræmd könnunarpróf eru í raun lítill hluti af því heildarnámsmati sem fram fer í skólum og mikilvægt að nálgast prófin með því hugarfari. Samræmd könnunarpróf eiga að meta hæfni og færni nemenda í samræmi við aðalnámskrá. Ennfremur liggur fyrir að samræmd könnunarpróf meta einungis ákveðna þætti í aðalnámskrá en ekki alla þá námsþætti sem eru tilgreindir þar. Til dæmis er ekki verið að meta hlustun, sköpun og ýmsa aðra mikilvæga námsþætti. Samræmd könnunarpróf gegna hlutverki svokallaðs ytra námsmats en megintilgangur þess er að fá fram niðurstöður um stöðu nemenda sem eru sambærilegar milli skóla og yfir tíma. Meginforsendur fyrir námsmati eru að inntak prófanna byggist á aðalnámskrá grunnskóla í hverri námsgrein, allir nemendur þreyti sambærileg próf með nákvæmlega sama inntaki, við sambærilegar aðstæður og að prófin séu sambærileg milli ára. Styrkur könnunarprófanna felst í því að meta hæfni nemenda með sama hætti og við sambærilegar aðstæður sem gerir þeim kleift að draga fram ákveðið sjónarhorn á stöðu nemenda sem námsmat skóla getur ekki veitt og eru því mikilvæg viðbót við fjölbreytileika námsmats í grunnskólum.

  Flestir telja að bæði innra og ytra námsmat þurfi að vera til staðar svo nemendur, foreldrar og kennarar fái góða endurgjöf um það hvernig nemandanum gengur í náminu.

 • Við höfum heyrt orðin kynningarpróf, sýnispróf, könnunarpróf og samræmt könnunarpróf – getið þið útskýrt þetta?

  Hér áður fyrr var bara lagt fyrir eitt próf og það próf var ákveðið lokapróf í 10. bekk, sem síðan var notað sem ákveðið gagn við inntöku í framhaldsskóla. Þetta á ekki við lengur. 

  Kynningarpróf eru próf í fullri lengd (þ.e. með sama fjölda prófatriða og samræmd könnunarpróf) sem finna má á heimasíðu sem sett voru á heimasíðu Menntamálastofnunar. Tilgangur þeirra er að kynna fyrir nemendum, foreldrum, kennurum og öðrum hvernig rafræn próftaka virkar. Kynningarprófiðgerir nemendum kleift að kynnast prófakerfinu fyrir prófdagana þannig að þeir geti æft sig í rafrænni próftöku, viti hvað þeir eigi í vændum, hvernig innskráningin í prófið virkar og fleira. Jafnframt er gagnlegt fyrir kennara að skrá sig inn í kynningarprófið, m.a. til að sjá hvernig innskráningarferlið er, hvernig veflás og prófakerfið í heild sinni virkar. Hafa ber í huga að tilgangur kynningarprófa er ekki að undirbúa nemendur efnislega fyrir samræmdu könnunarprófin. Þetta var gert í fyrsta skipti í febrúar 2018 og hefur því verið vel tekið. Farið var inn í kynningarprófið um það bil 11.000 sinnum fyrir samræmdu könnunarprófin í mars sama ár. Þetta er í raun gamalt próf sem hefur verið sett inn í rafræna prófakerfið.

  Könnunarpróf er próf sem lagt er fram í skólum til að kanna stöðu nemenda, meta hvort markmiðum náms hefur verið náð og fleira í þeim dúr. Til að hjálpa nemanda við nám er mikilvægt að vita hvar hann stendur og móta kennsluaðferðir í samræmi við styrkleika og veikleika nemandans.

  Samræmd könnunarpróf eru próf sem ná yfir stærri hóp (heilu árgangana) og eru lögð fyrir við sambærilegar aðstæður.. Samræmd könnunarpróf eru almenns eðlis og ná yfir almenna færni. Þau taka ekki mið af stöðu einstakra nemenda, yfirferð á námsefni í einstökum skólum eða aðstæðubundnum þáttum í skólum.

  Sýnispróf eru próf sem í eðli sínu eru alveg eins og prófið sem lagt var fyrir. Þau eru útbúin þar sem ekki má birta eða gera samræmdu könnunarprófin opinber. Þar er hægt að sjá á hvaða matsviðmið hvert og eitt prófatriði reynir og útskýringu á hvaða hæfni spurningin reynir á. Nemendur og foreldrar sjá þannig hvort nemandinn hefur náð þeirri hæfni sem hver og ein spurning prófar. Mörgum finnst gott að skoða sýnisprófin og sjá hvernig nemandinn svaraði, þar sem þar birtast raunveruleg svör nemenda (rétt, rangt, ekki svarað) þótt það séu einungis sambærileg prófatriði (prófspurningar) sem þar birtast en ekki spurningarnar úr prófinu sjálfu.

 • Þessi tenging samræmdra könnunarprófa við inntöku í framhaldsskóla er ekki góð og eykur kvíða og spennustig hjá nemendum.

  Inntaka nýnema í framhaldsskóla byggist fyrst og fremst á þeim einkunnum sem nemendur fá við lok 10. bekkjar í grunnskólum. Um er að ræða námsmat sem unnið er á faglegan hátt Samkvæmt reglugerð nr. 1199/2016 er framhaldsskólum heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni.

  Þannig eru niðurstöður samræmdra könnunarprófa almennt ekki sendar með þegar sótt er um framhaldsskóla. Ennfremur er mikilvægt að átta sig á því að samræmd könnunarpróf fara fram í 9. bekk og eru ekki hluti af lokaeinkunn 10. bekkjar úr grunnskóla. Það er rétt að námsmat og próf í 10. bekk geta valdið nemendum áhyggjum og það er krefjandi tilhugsun að niðurstaða prófanna í 10. bekk ákvarði möguleika nemendans til að sækja um framhaldsskóla. Almennt virðast grunnskólar standa vel að þessu námsmati. Nemendum og foreldrum er bent á að ræða við skóla sinn og sveitarfélagið um námsmat í 10. bekk og hvernig einkunnir þaðan fara til framhaldsskólans.

 • Hvernig hafa prófin breyst? Hvenær hættu þau að vera lokapróf og urðu könnunarpróf?

  Umtalsverð breyting var gerð á samræmdum könnunarprófum á árunum 2008-2009 þegar grunnskólalög voru endurskoðuð.

  Prófunum var fækkað úr sex í þrjú, ákveðið var að þau yrðu ekki lokapróf og fengju stöðu könnunarprófa þess í stað. Þá voru próf í 10. bekk færð á haustið, þ.e. sett á sama tíma og 4. og 7. bekkur. Skólaárið 2016-2017 voru prófin gerð rafræn og í stað 10. bekkjar að hausti eru þau lögð fyrir 9. bekk að vori. Núverandi fyrirkomulag prófa er tilgreint í reglugerð.

 • Hvernig er með samræmd könnunarpróf í öðrum löndum?

  Samræmdu könnunarprófin á Íslandi eru að mörgu leyti einstök. Ísland er eiginlega eina landið í Evrópu sem notar ekki samræmd próf til að ákveða hvaða skólar nemendur geta sótt um í og hvað möguleikar standa til boða. Í flestum löndum eru samræmd próf notuð til að leiðbeina nemendum um hvað nám henti þeim og hvaða tækifæri standi þeim til boða – þetta er ekki raunin á Íslandi.

  Við búum við opið menntakerfi að því leyti að nemendur geta komist inn í flesta framhaldsskóla og yfir 90% nemenda fá inngöngu í þann framhaldsskóla sem þeir velja í fyrsta vali að loknu grunnskólanámi. Eins komast flestir í háskóla ef þeir hafa lokið stúdentsprófi. Víða erlendis er þetta ekki svona og samræmd könnunarpróf notuð til að ákveða hvaða möguleikar standa nemendum til boða. Þegar prófin eru notuð í þessum tilgangi kallast þau „high stake“ próf eða hagsmunapróf og nær öll lönd í Evrópu eru með slíkt fyrirkomulag.

  Þegar litið er til uppbyggingar, framsetningar og úrvinnslu prófa þá eru samræmd könnunarpróf á Íslandi áþekk prófum í öðrum löndum. Víða kallast prófin „samræmd próf“ (e. national tests) en ekki „samræmd könnunarpróf“, vegna þess að tilgangur þeirra er umfangsmeiri og þau markvisst notuð til að vera mælikvarði á gæði kennslu, árangur skóla og jafnvel sem mælikvarði á útdeilingu fjármagns.

  Mörg lönd leggja samræmd könnunarpróf mun oftar fyrir og prófa úr fleiri námsgreinum en gert er hér á landi. Sem dæmi má nefna að í Noregi er prófað í 5., 8. og 9. bekk í lestri, stærðfræði og ensku. Í Danmörku er prófað í öllum árgöngum en mismunandi er á milli ára hvaða próf eru skyldupróf. Námsgreinar sem prófað er úr eru danska/lestur, stærðfræði, enska, landafræði, líffræði, eðlis-/efnafræði.

 • Hvað er rafrænt prófakerfi?

  Rafrænt prófakerfi býður upp á þá möguleika að setja inn verkefni ásamt myndum, töflum og fleira þannig að unnt sé að halda utan um þau á skilgreindum stöðum í kerfinu. Í rafrænu prófakerfi er unnt að velja spurningar t.d. eftir námsgreinum og bekkjum og búa til próf.

  Ýmiss atriði þurfa að vera til staðar í rafrænu prófakerfi svo hægt sé að nota það með góðu móti fyrir samræmd könnunarpróf. Próf sem búið er til í rafrænu prófakerfi þarf að hafa valmyndir á íslensku og geta meðhöndlað íslenska stafi. Þá þarf að vera unnt að láta kerfið búa til prófkóða sem tengjast persónuauðkennum hvers próftaka. Það þarf að vera hægt að aðlaga próftöku að ólíkum tölvum og tækjum og hafa tengingu við alla skóla landsins. Birtingarmyndir fyrir nemendur þurfa að vera skýrar og falla vel á ólíka skjái. Það þarf að vera unnt að nota reiknivél og formúlublað inni í prófinu.

  Nauðsynlegt er að veflás sé til staðar þannig að próftakar geti ekki farið á netið eða sótt önnur gögn meðan á fyrirlögn stendur. Kerfið þarf að halda utan um ólíka próftíma (innskráning á ólíkum tímum og klukku) og þarf að geyma bæði prófsvör og próftíma ef slökknar skyndilega á tölvu viðkomandi. Prófakerfið þarf að bjóða upp á að spurningar og svör séu lesin fyrir nemendur, þ.e. að hægt sé að setja inn hljóðskrár með upplestri svo hægt sé að bjóða upp á próf með slíku stuðningsúrræði fyrir þá nemendur sem það þurfa. Það þarf að vera unnt að hafa nokkur ólík próf á sama tíma (a-próf, b-próf og próf með stuðningsúrræði). Prófakerfið þarf að halda utan um svör allra nemenda við öllum prófatriðum og bjóða upp á örugga próffræðilega úrvinnslu á gögnum.

  Kerfið þarf að geta haldið utan um kynningarpróf (æfingapróf) og forprófun prófatriða. Þá þarf prófakerfið að henta þeim sem eru með sjónskerðingu, þurfa lesinn texta og fleira. Síðast en ekki síst þarf prófakerfið að geta staðið undir álagi þegar um 4000 nemendur þreyta próf samtímis.

  Menntamálastofnun hefur ekki haft þau aðföng sem þarf til að byggja upp og viðhalda sínu eigin rafræna prófakerfi og hefur stofnunin því þurft að leita til utanaðkomandi aðila með þá þjónustu.

 • Hvernig búið þið til prófin - er þetta vandað ferli?

  Öll prófverkefni eru samin af sérfræðingum stofnunarinnar (kennurum og próffræðingum) sem og starfandi kennurum. Þegar verkefni eru samin er horft til hæfniviðmiða aðalnámskrár fyrir hverja námsgrein.

  Fyrir próf í íslensku og ensku þarf að skoða og velja texta sem hæfir aldri nemendanna, eftir því hvort um er að ræða próf fyrir 4. 7. eða 9. bekk. Textarnir þurfa að vera þess eðlis að hægt sé að semja ýmsar gerðir spurninga úr þeim svo sem að beita mismunandi hugtökum, nýta sér þekkingu og skilning á orðaforða, geta lesið á milli lína og túlkað efni texta.

  Stærðfræðiverkefni skiptast í mismunandi efnisflokka eftir aldursstigum; reikning og aðgerðir, rúmfræði, algebru, tölur og talnaskilning og hlutföll og prósentur.

  Þegar prófatriði hafa verið samin er farið yfir þau á fundi og atriðin löguð og bætt. Eftir það fara verkefni í forprófun þar sem þau eru lögð fyrir tiltekinn fjölda nemenda í skólum. Ef prófatriði stenst ekki próffræðilegar kröfur eftir forprófun er það lagfært fyrir aðra forprófun eða því hent. Enginn texti fer í próf sem ekki stenst kröfur um gæði prófatriða. Öll próf eru yfirlesin af prófahópi, sérfræðingum, prófarkalesara og reyndum kennurum.

 • Hvað er raðeinkunn?

  Raðeinkunn gefur til kynna stöðu nemenda í hverjum árgangi fyrir sig og segir til um hvernig nemandi stendur miðað við aðra nemendur í sama árgangi. Þessi einkunn er samanburðarhæf milli ára og milli námsgreina. Nemandi sem fær raðeinkunnina 60 stendur sig jafn vel eða betur en 60% árgangsins.

 

Hér má sjá spurningar og svör er varða undirbúning og framkvæmd samræmdra könnunarprófa 

 

 • Hvernig er sótt um stuðningsúrræði og undanþágur?

  Á heimasíðu Menntamálastofnunar, undir „samræmd próf“ eru „Leiðbeiningar um framkvæmd“. Þar má sjá hvernig sótt er um stuðningsúrræði og undanþágur. Ennfremur er þar tilvísun í upplýsingar um hvað felst í stuðningsúrræðum og undanþágum. Einnig eru þar eyðublöð vegna þessa.

  Mikilvægt er að virða tímamörk og passa að umsóknarfrestur um stuðningsúrræði og undanþágur sé ekki runninn út. Menntamálastofnun þarf að undirbúa prófin, útbúa prófkóða og fara eftir stjórnsýslulögum og þess vegna eru ákveðin tímamörk á umsóknum. Nemendur og foreldrar ræða við kennara eða skólastjórnanda um stuðningsúrræði og undanþágur. Það er síðan skólinn sem skráir stuðningsúrræði nemandans inn í rafrænt kerfi sem kallast Skólagátt. Þannig hefur fyrirkomulag á umsóknum um stuðningsúrræði og undanþágur verið einfaldað. Menntamálastofnun fær engin trúnaðargögn um nemendur, þeim er haldið til haga í skóla nemandans.

 • Hvaða hlutverki gegna kynningarprófin?

  Nemendur, foreldrar, kennarar og aðrir eiga kost á að þreyta kynningarpróf í fullri lengd, sem eru aðgengileg á heimasíðu Menntamálastofnunar. Með þeim geta áhugasamir kynnst prófakerfinu og æft sig á rafrænu prófi. Tilgangur kynningarprófanna er að sýna dæmi um spurningar og kynna prófakerfið en ekki að undirbúa nemendur efnislega fyrir prófin. Á heimasíðunni eru einnig ýmsar hagnýtar upplýsingar varðandi prófin, undirbúning og framkvæmd.

  Hægt er að æfa sig í kynningarprófunum með hljóðskrám. Í kynningarprófunum fylgir hljóðskrá fyrsta lestexta og spurningum í íslensku og ensku. Í stærðfræði fylgir hljóðskrá í fyrstu 10 dæmunum. 

 • Hvar eru góðar upplýsingar um prófin og hvaða hjálpartæki eru í prófunum?

  Á heimasíðu Menntamálastofnunar eru greinargóðar upplýsingar um prófin, framkvæmd þeirra og hvernig þau eru sett upp. Í samráði við nemendur, foreldra, kennara og skólastjórnendur er verið að breyta og bæta við upplýsingum.

  Við bendum sérstaklega á „Leiðbeiningar um framkvæmd“ en þar má finna góðar upplýsingar um prófin og framkvæmdina, t.d. um próftíma, hjálpartæki, stuðningsúrræði, kröfur á tölvubúnað og ýmislegt fleira. Ennfremur er gagnlegt að skoða viðbragðsáætlanir, gátlista og fleira.   Finna má „Leiðbeiningar um framkvæmd“ á heimasíðu Menntamálastofnunar en þá er smellt á „próf og mat“ og „samræmd könnunarpróf“.

 • Mega nemendur nota sína eigin vasareikna?

  Fyrir 4. og 7. bekk.

  Notkun vasareikna er heimil í hluta stærðfræðiprófa í 4. og 7. bekk.
  Nemendur mega mæta með eigin vasareikna í próf eða nýta vasareikni sem skólinn útvegar þeim. Þeir geta líka notað vasareikni sem er innbyggður í prófakerfinu.
  Þess skal gætt að símar séu ekki nýttir í þessum tilgangi.
  Nota má forritanlega vasareikna með því skilyrði að þeir séu endurræstir bæði fyrir og eftir próf. 

  Fyrir 9. bekk.

  Notkun vasareikna er heimil í öllu prófinu í 9. bekk. Prófinu er EKKI skipt í hluta þar sem reiknivélar eru ýmist heimilar eða ekki.
  Forritanlegir vasareiknar eru heimilir, svo fremi sem vasareiknirinn er endurræstur fyrir og eftir prófið.
  Ekki er sérstaklega merkt við prófatriði eða dæmi að nota þurfi vasareiknirinn við lausn þeirra, breytilegt er eftir nemendum hve oft og í hvaða prófatriðum þeir kjós að nota hann.

 • Er sveigjanleiki á því hvenær próf skulu hefjast?

  Skólar eiga kost á að dreifa próftöku nemenda yfir daginn svo framarlega sem þeir hefji próftöku á tímabilinu 8:00 til 14:00. Skólastjóri ákveður hvenær próf hefjast á prófdögum. Til að koma í veg fyrir mikið álag á netkerfi skólans og prófakerfið eru skólar hvattir til að láta nemendur hefja próftöku með jöfnu millibili. Ekki er talið ráðlegt að allir nemendur skrái sig inn í próf á sama augnablikinu heldur láta líða nokkrar mínútur milli innskráningar nemenda, þ.e. láta nemendum skrá sig inn í smærri hópum í einu.

  Skólar eiga kost á að halda tvær próflotur hvern prófdag ef þörf er á að skipta nemendahópnum. Hefst þá fyrri lota á tímabilinu 8:00 til 10:00 og hefst sú síðari að þeirri fyrri lokinni. Henti þessar tímasetningar illa geta skólastjórnendur ákveðið að hefja próf fyrr eða síðar.

  Rafræna prófakerfið heldur utan um próftíma og lokast prófið sjálfkrafa þegar tíminn er liðinn. Nemendur geta fylgst með hvað próftíma líður á klukku í vinnustiku. Ef tölva slekkur á sér í próftíma eða nemandi dettur út úr prófi (rafmagnsleysi eða annað) þá stöðvast próftíminn sjálfkrafa.

 • Er hægt að senda inn prófið án þess að hafa svarað öllum spurningunum?

  Nemendur geta skráð sig út úr prófinu og sent það inn án þess að svara öllum spurningum.

 • Hver er ástæða þess að það eru þrjár útgáfur af prófinu?

  Samræmd könnunarpróf eru lögð fyrir í nokkrum hliðstæðum prófútgáfum. Prófin innihalda sambærileg prófverkefni að lengd, þyngd og inntaki, ásamt því að hluti prófverkefna skarast milli prófanna. Nemendur fá því sambærileg próf en blæbrigða munur getur verið á spurningum. Prófatriðin reyna á sömu færni en svipgerð þeirra er ólík. Dæmi um hliðstæð prófatriði:

  Atriði A: 4 x 3 = 12

  Atriði B: 3 x 5 = 15

 • Hvað fara nemendur í mörg próf og af hverju hafa svona margir skoðanir á prófunum?

  Það er ekki einfalt svar við þessu og sjónarmið eru mjög ólík.

  Segja má að hver nemandi fari í samræmd könnunarpróf í þrjú skipti (samtals sjö próf). Nemendur fara í próf í íslensku, stærðfræði og ensku. Til dæmis fara nemendur þrisvar í próf í íslensku, þ.e. í 4., 7. og 9. bekk. Heildartími hvers nemanda í íslenskuprófi er að meðaltali rúmir þrír klukkutímar á allri sinni skólagöngu, en hver nemandi er um það bilklukkutíma að meðaltali í hverju prófi. Þannig er próftími samræmdra könnunarprófa ekki mikill miðað við heildartíma nemenda í skóla og í raun merkilegt hversu mikla athygli samræmd próf fá miðað við annað námsmat.

  Það er álitið að það sé mikilvægt fyrir nemendur, foreldra, kennara og aðra að fá endurgjöf á nám nemenda og upplýsingar um hvernig námið gengur. Það skiptir miklu máli fyrir nemanda, velferð hans og framtíð að hann fái góða menntun og tryggt sé að gæði skólastarfs séu mikil. Ennfremur fara miklir fjármunir í menntun og það þykir mikilvægt að fræðslustjórar, fulltrúar í sveitarstjórn og ráðuneytið fái einhverjar samanburðarhæfar upplýsingar um hvernig skólastarfið gengur. Þannig eiga skólar, sveitarfélög, Menntamálastofnun og fleiri aðilar að nýta niðurstöður prófa til að stuðla að umbótum og þróun í skólastarfi.

  Almennt eru gæði samræmdra prófa mikil og allar rannsóknir sem hafa verið gerðar á prófunum sína að þau eru réttmæt, áreiðanleg og ná mjög vel að meta hæfni nemenda í ákveðnum námsþáttum.

  Samræmd könnunarpróf eru flókin og oft er umræða um þau ósanngjörn. Til dæmis eru einstakar spurningar teknar fyrir ef ein innsláttar-/stafsetningarvilla læðist þar inn en ekki heildstæð eða fræðileg athugun gerð á gæðum.

  Stundum er látið að því liggja að samræmd próf eigi að meta allt skólastarf og þau séu léleg því þau meti ekki öll hæfnimarkmið aðalnámskrár. Í lögum er kveðið á um að niðurstöður samræmdra prófa eigi að vera opinberar en því miður eru þær upplýsingar stundum notaðar á ósanngjarnan hátt, t.d. til að dæma heilan skóla eða sveitarfélag. Þetta er ekki sú umbótamiðaða áhersla sem á að vera til staðar og alltaf ljóst að samræmd próf meta mjög afmarkaða þætti skólastarfs en getur ekki verið heildarmat á skóla eða árangri kennslu. Þá er líka ljóst að þessi próf eiga að athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hefur verið náð.

  Samræmd könnunarpróf hafa verið gagnrýnd fyrir það að stýra kennslu (afturvirk áhrif) og stjórna þeim áherslum sem eru í kennslunni. Þetta er réttmæt gagnrýni og ljóst að prófin hafa áhrif á það sem er kennt og hvernig. Hins vegar hefur þetta vonandi verið að breytast síðustu ár þar sem prófin eru ekki lengur í 10. bekk og þau eru ekki hluti af inntöku nemenda í framhaldsskóla. Þau hafa fengið skýrara hlutverk sem könnunarpróf og nær allir skólastjórendur segjast nota niðurstöður prófanna sem endurgjöf á starfsemi skólans og til að bæta skólastarf.

  Sumir hafa bent á að ytra námsmat, til dæmis samræmd könnunarpróf, dragi úr faglegri ábyrgð kennara og sé ekki til þess fallið að treysta þeim í störfum sínum og valdefla. Bent hefur verið á að kennarar séu fullfærir um að sinna námsmati og ekki sé þörf fyrir ytra eftirlit með störfum hans. Þá er sagt að slíkt lokamat (e. summative assessment) styðji ekki nægilega við kennsluaðferðir og sé ekki nógu uppbyggileg endurgjöf fyrir nemandann heldur sé farsælla að nota námsmat í formi leiðsagnarmats, þar sem nemandinn sjálfur sé virkari í eigin námi og námsferli.

  Í hreinskilni sagt þá eru sjónarmiðin mörg og erfitt að svara þessari spurningu á sanngjarnan hátt. Það hefur verið kröftug umræða um samræmt námsmat frá síðasta áratugi og henni er ekki lokið. Almenn þróun prófamála í Evrópu er hins vegar á þann veg að styðjast við fleiri form námsmats og blanda þeim meira saman, t.a.m. leiðsagnarmati og lokamati. Slík blöndun á námsmati hefur verið að færast í aukanna, með mun fjölbreyttari hætti en áður. Ennfremur er ljóst að aðalnámskrár hafa verið að breytast í þá veru að á leggja mun meiri áherslu á hæfni nemenda og virkni hans í námi, sem ekki er alltaf einfalt að meta með „gömlu“ aðferðunum í námsmati.