TALIS - rannsókn

TALIS rannsóknin er framkvæmd af OECD og er ætlað að fylla upp í þá mynd af skólakerfum landanna, sem þegar hefur fengist úr öðrum alþjóðlegum rannsóknum svo sem PISA.

Aflað er gagna frá kennurum og skólastjórnendum á unglingastigi um störf þeirra, vinnuumhverfi og aðstæður. Næsta fyrirlögn verður á vorönn 2023.  Þá verður könnunin einnig lögð fyrir starfsfólk leikskóla. Í fyrri fyrirlögnum hér á landi var aflað gagna frá kennurum á yngsta- og miðstigi (2008) og á framhaldsskólastigi (2013) samhliða unglingastiginu sem er fastur liður í TALIS rannsókninni.

Í rannsókninni gefst kennurum, skólastjórum og öðru starfsfólki kostur á að lýsa starfsaðstæðum sínum, starfsháttum, endurgjöf, starfsþróun, starfsánægju og öðrum mikilvægum þáttum í starfi þeirra. 

Hér á landi er ávallt lagt fyrir allt þýðið (ekki úrtak) til þess að ná tilskyldum þátttakendafjölda. Gerð er krafa um að 75% skóla og 75% starfsmanna í þýðinu taki þátt til þess að niðurstöður séu birtar og samanburður gerður við önnur lönd í skýrslum OECD.

Menntamálastofnun sér um framkvæmd rannsóknarinnar en nýtur aðstoðar mennta- og menningarmálaráðuneytis og fagfélaga Kennarasambands Íslands. 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti fjármagnar rannsóknina, að hluta til með styrk frá Evrópusambandinu.