Ákvæði grunnskólalaga um innra og ytra mat og upplýsingaskyldu sveitarfélaga taka til sjálfstætt rekinna grunnskóla sem eru með staðfestan þjónustusamning, með sama hætti og til opinberra grunnskóla. Það sama á við um ákvæði reglugerðar um innra og ytra mat og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald. Rekstraraðila sjálfstætt rekins grunnskóla er skylt að veita mennta-yfirvöldum ríkis og sveitarfélaga upplýsingar um rekstur og starfsemi skólans í samræmi við þjónustusamning viðkomandi skóla við sveitarfélag þegar þess er óskað eða eins fljótt og kostur er.
Afturköllun staðfestingar Menntamálastofnunar á þjónustusamningi.
Komi í ljós eða liggi fyrir rökstuddur grunur um að starfsemi sjálfstætt rekins grunnskóla, sem hlotið hefur staðfestingu, sé ekki í samræmi við gildandi lög og reglugerðir sem um starfsemina gilda, eða undanþágur sem veittar hafa verið, hvílir skylda á sveitarfélagi sem gert hefur þjónustu¬samning við rekstraraðila að rannsaka slíkar ábendingar og eftir atvikum tilkynna til Mennta¬mála¬stofnunar.
Fái Menntamálastofnun upplýsingar með öðrum hætti um verulega annmarka á starfsemi sjálfstætt rekinna grunnskóla skal stofnunin kanna hjá viðkomandi sveitarfélagi og rekstraraðila hvort upp-lýsingarnar séu á rökum reistar.
Ef athugun sveitarfélags eða eftir atvikum Menntamálastofnunar leiðir í ljós að verulegir annmarkar eru á starfsemi sjálfstætt rekins grunnskóla skal rekstraraðila gefinn kostur á að bæta úr annmörkum innan tilgreindra tímamarka. Hafi ekki verið bætt úr þeim annmörkum innan veitts tímafrests skal sveitarfélag tilkynna um slíkt til Menntamálastofnunar.
Reynast verulegir annmarkar vera enn til staðar hefur Menntamálastofnun heimild til að afturkalla staðfestingu á þjónustusamningi viðkomandi grunnskóla.