1. Forsíða
  2. 11. Niðurstöður, notkun gagna og opinber birting

11. Niðurstöður, notkun gagna og opinber birting

11.1 Nokkur orð um staðlað námsmat

Staðlað námsmat eða ytra námsmat af því tagi sem samræmd könnunarpróf eru gegna gjörólíku hlutverki en það námsmat sem fram fer innan skóla. Námsmat í grunnskólum er breytilegt frá einum skóla til annars, jafnvel milli kennara eða námsgreina innan sama skóla. Auk þess er umgjörð þess, umfang, fyrirgjöf og framkvæmd mjög breytileg. Kostir þess eru sveigjanleiki, hægt er að sníða það eftir þörfum nemendahópa, áherslum eða efnistökum í námi og kennslu hverju sinni. Ókostirnir eru að niðurstöður matsins eru ekki sambærilegar milli nemenda í ólíkum skólum, milli námsgreina innan sama skóla eða milli árganga.

Megintilgangur ytra námsmats, eins og samræmdra könnunarprófa, er að gefa niðurstöður sem eru sambærilegar milli námsgreina, skóla og milli ára. Forsendur fyrir samræmdu námsmati eru að inntak prófanna sé byggt á aðalnámskrá grunnskóla í hverri námsgrein, þau séu sambærileg milli ára og skipulagseininga og að umgjörð prófa sé sambærileg. Sú staðreynd að þau meta hæfni nemenda með sama hætti og við svipaðar aðstæður hverju sinni og það að heilir árgangar þreyta prófin gerir það að verkum að hægt er að draga fram ákveðið sjónarhorn á stöðu nemenda sem innra námsmat skóla getur ekki veitt.

Mikilvægt er að hafa fjölbreytt námsmat og hafa bæði öflugt námsmat hjá skólunum en líka samræmt námsmat sem gefur góða heildarmynd af stöðu menntamála.

11.2 Opinber birting á niðurstöðum

Samkvæmt reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa nr. 173/2017 ber Menntamálastofnun að birta opinberlega ákveðnar niðurstöður úr prófunum.

Menntamálastofnun skal eigi síðar en sex vikum eftir að próf eru haldin, gefa út yfirlit um heildar­niðurstöður prófanna á rafrænu formi og gera niðurstöðurnar aðgengilegar fyrir grunnskóla, mennta­yfirvöld, sveitarfélög og ríki og birta þær opinberlega. Þar skulu koma fram landsmeðaltöl og meðal­töl einstakra skóla eftir námsgreinum og námsþáttum. Einnig skal koma fram hlutfall nemenda eftir sveitarfélögum sem ekki þreyta hvert próf og aðrar upplýsingar sem þarf til að skýra niður­stöður og auðvelda túlkun þeirra. Upplýsingar um einstaka skóla þar sem tíu eða færri nemendur þreyttu sam­ræmd próf skulu ekki birtar opinberlega samkvæmt þessari reglugerð.

Þær upplýsingar sem eru birtar opinberlega , s.s. upplýsingar um frammistöðu nemenda eftir skólum, landshlutum og sveitarfélögum o.s.frv., eru birtar í skýrslugrunni Menntamálastofnunar.

Skýrslugrunnurinn var settur upp til að taka við af skýrslum sem áður voru birtar um könnunarprófin. Grunnurinn auðveldar vinnslu á niðurstöðum og er aukin aðstoð við aðila skólasamfélagsins og aðra til að vinna hverskonar gögn. Grunnurinn gefur kost á að skoða niðurstöður á myndrænu formi og í töflum.

Niðurstöður um frammistöðu nemenda sýna einkum stöðu ákveðinna hópa á tilteknum tíma, hlutföll nemenda sem fá hverja einkunn/hæfnieinkunn og upplýsingar er tengjast framvindu nemenda í námi og dreifingu nemenda innan skóla eða svæðis. Um er að ræða meðaltalsniðurstöður og niðurstöður eftir námsþáttum í íslensku og stærðfræði fyrir yngsta stig, miðstig og unglingastig. Þá eru niðurstöður um ensku á unglingastigi. Niðurstöðurnar má skoða eftir skólum, sveitarfélögum, kjördæmum, landshlutum eða eftir landssvæðum. Nánari fróðleik um niðurstöður tengdar frammistöðu má finna undir flipanum „Um einkunnir“.

Niðurstöður tengdar framkvæmd sýna fjölda og hlutfall nemenda sem þreytir prófin, eru með undanþágu eða fjarvist og fjölda og hlutfall nemenda sem nýtir stuðningsúrræði við próftöku. Þessar niðurstöður má skoða eftir bekkjum, skólum, sveitarfélögum, kjördæmum, landshlutum eða eftir landsvæðum.

11.3 Notkun á niðurstöðum 

Í 3. grein reglugerðar um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa (nr. 173/2017) segir: „Niðurstöður prófa skulu nýttar við skipulag náms og kennslu nemenda að því marki sem kennarar eða skólastjórnendur telja gagnlegt og taka tillit til réttmætra óska nemenda og foreldra þeirra um slíkt. Menntamálastofnun skal nýta niðurstöður prófa til að stuðla að umbótum og þróun í skóla­starfi.“

Mikilvægt er að nota þær niðurstöður sem koma út úr könnunarprófunum til að meta hvernig hæfniviðmiðum námsþáttar hefur verið náð, vera leiðbeinandi um áherslur í námi nemenda, veita upplýsingar um námsárangur og námsstöðu einstakra nemenda og til að veita upplýsingar um hvernig einstakir skólar standa í þeim námsþáttum sem prófað er úr. Ítrekað er að könnunarprófin athuga, eftir því sem kostur er, að hvaða marki hæfniviðmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð (sjá nánar 3. gr. rg. nr. 173/2017).

Könnunarprófin eru yfirgripsmikil próf sem eru byggð á viðmiðum sem aðalnámskrá skilgreinir fyrir þriggja ára tímabil. Þau gefa því almennar niðurstöður um megin námsþætti sem prófað er úr, en ekki upplýsingar um einstök hæfnimarkmið. Aðferðir sem staðlað mat byggir á fellur illa að sumum markmiðum aðalnámskrár. Samræmd könnunarpróf ná þannig ekki að meta öll markmið aðalnámskrár og mikilvægt að horfa einnig til námsmats skóla við mat á ýmsum þáttum aðalnámskrár. Mikilvægt er að hafa þennan tilgang könnunarprófanna og nýtingu þeirra í huga þegar unnið er með gögnin í skýrslugrunninum. Gögn þessi geta ekki, ein og sér, verið grunnur til að meta starf einstakra skóla, námsárangur eða gæði kennslu, enda þurfa fleiri þættir skólastarfsins að liggja til grundvallar í slíku mati. 

11.4 Að nota gögn á umbótamiðaðan hátt

Menntamálastofnun leggur áherslu á að gögnin um samræmd könnunarpróf séu notuð á umbótamiðaðan hátt. 

Menntamálastofnun hvetur til varfærni við túlkun á niðurstöðunum, þar sem ólík stefna skólanna og aðstæður geta haft áhrif á heildarniðurstöður hvers skóla. Þannig getur stærð skóla, þátttökuhlutfall, félagslegur bakgrunnur nemenda, námsforsendur, sértækir námserfiðleikar, færni í íslensku og fleiri þættir gert beinan samanburð á milli skóla óréttmætan. Ýmsir slíkir þættir geta haft áhrif á námsárangur barna og árangur í könnunarprófum, sem gerir samanburð ósanngjarnan og gefur mögulega ekki rétta mynd af árangursríku starfi skólans.

<<Fyrri kafli

Næsti kafli>>

Efnisyfirlit