Þær áskoranir sem kennarar standa frammi fyrir í Evrópu eru að mörgu leyti keimlíkar í ólíkum löndum. Kennaraskortur blasir við í mörgum Evrópuríkjum, margir kennarar upplifa streitu í starfi og víða ríkir óánægja með kjör og starfsaðstæður.
Í nýútkominni skýrslu Eurydice um Kennara í Evrópu eru teknar saman upplýsingar úr ýmsum áttum um skólakerfi 38 Evrópulanda. Í skýrslunni er unnið með niðurstöður TALIS rannsóknarinnar á starfsháttum og viðhorfum kennara á unglingastigi, auk upplýsinga um lagalegt umhverfi og aðra umgjörð kennarastarfsins í þátttökuríkjunum.
Hvað niðurstöður fyrir Ísland varðar, kemur margt áhugavert í ljós. Ísland er í hópi 10 landa þar sem brottfall úr kennarastétt er hvað mest og streita í starfi mælist fyrir ofan meðaltal í Evrópu. Hér á landi er gert ráð fyrir fleiri tímum til starfsþróunar en í flestum samanburðarlöndunum. Ísland er einnig eitt þeirra landa þar sem gert er ráð fyrir að kennarar geti tekið tiltölulega löng leyfi frá kennslu til starfsþróunar að uppfylltum vissum skilyrðum. Ólíkt mörgum ríkjum, hefur íslensk kennarastétt ekki þurft að glíma við lítið starfsöryggi.