Rafræn ferilbók

Menntamálastofnun hefur verið falið að annast ritstýringu og innleiðingu Rafrænnar ferilbókar. Yfrmarkmið verkefnisins er að efla gæði starfsþjálfunar með því að mynda samskiptavettvang nemanda, vinnustaða, skóla og annarra sem koma að starfsnámi, um skilgreinda hæfniþætti þess starfs sem nemandinn lærir til. Tölvukerfið Rafræn ferilbók mun innihalda lýsingu á verkþáttum og hæfni sem nemandi þarf að búa yfir við lok starfsnáms. Inntak í Rafrænni ferilbók byggir á starfalýsingum og hæfnikröfum sem starfsgreinaráð vinna nú að því að endurvinna í samvinnu við Menntamálstofnun. Starfalýsingar og hæfnikröfur er leið atvinnulífsins til að skilgreina þarfir fyrir kunnáttu og hæfni sem námsbrautalýsingar fyrir við­komandi starfsgreinar byggjast á og eru hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla.

Ferilbókin tryggir að nemandinn fái þjálfun í þeim verkþáttum sem hæfnikröfur starfs gera ráð fyrir. Þetta mun auka gæði náms þar sem nemandinn fær viðeigandi þjálfun í öllum hæfniþáttum. Innleiðing rafrænna ferilbóka mun styrkja réttindi starfsnámsnemenda en nemasamningar verði vistaðir í ferilbókinni. Fyrir atvinnulífið er ábatinn sá að samskiptin við skólakerfið verða skilvirkari og einfaldari. Rafræn ferilbók er mikilvægur liður í því að einfalda utanumhald og auka gæði í starfsþjálfun. Innleiðing kerfisins mun einnig stuðla að því að bæta og einfalda aðgengi nemenda að verk- og starfsnámi. Kerfið mun einnig veita greinargóðar upplýsingar um starfsnám sem mun nýtast í stefnumótun.

Nánari upplýsingar í síma 514-7500