1. Forsíða
 2. Um okkur
 3. Spurt og svarað

Spurt og svarað

Hér eru nokkrar algengar spurningar og svör við þeim. Ef þú finnur ekki svar við þinni spurningu hér þá sendir þú fyrirspurn til okkar á postur(hjá)mms.is

 • Er vefur Menntamálastofnunar opinn öllum?

  Já, vefurinn www.mms.is er öllum opinn endurgjaldslaust. Undantekningar eru  læst svæði fyrir kennara, aðgangur að því svæði er aðeins veittur grunnskólum og fræðslumyndir er aðeins hægt að sýna í grunnskólum. 

 • Hvað gerir Menntamálstofnun?

  Þau verkefni sem Menntamálastofnun sinnir eru í megindráttum fjórþætt:

  Í fyrsta lagi ber stofnuninni að sjá öllum grunnskólanemendum  fyrir fjölbreyttum og vönduðum námsgögnum sem eru í samræmi við aðalnámskrá. Í þessu verkefni felast umtalsverðar skyldur bæði hvað varðar gerð námsefnis og þjónustu við skóla. Einnig er í lögum um Menntamálastofnun gert ráð fyrir að stofnunin geti haft hlutverk varðandi námsgögn á öðrum skólastigum.

  Í öðru lagi skal Menntamálastofnun hafa eftirlit og meta með mælingum árangur af skólastarfi. Í þessu felst að sjá um samræmd próf í grunnskólum en einnig undirbýr stofnunin nú skimunarpróf sem ná munu til bæði leik- og grunnskóla. Stofnunin sér nú um framkvæmd Aðgangsprófa í Háskóla Íslands og til greina kemur að hún sinni námsmati á framhaldsskólastigi. Menntamálastofnun sér einnig um eftirlit og mat á leik-, grunn- og framhaldsskólum. Loks sinnir stofnunin eftirliti og mælingum á stöðu skólakerfisins út frá alþjóðlegum viðmiðum.

  Í þriðja lagi annast Menntamálastofnun söfnun, greiningu og birtingu upplýsinga um menntamál og veitir á grundvelli þeirra stjórnvöldum, fagaðilum og almenningi upplýsingar og leiðbeiningar og veitir ráðherra menntamála aðstoð og ráðgjöf. Í tengslum við þetta hlutverk sér Menntamálastofnun nú um framkvæmd stefnu stjórnvalda um eflingu læsis, Þjóðarátak um læsi. Hafa í því skyni verið ráðnir níu starfsmenn til stofnunarinnar sem sjá um öflun gagna um lestur og ráðgjöf við sveitarfélög, skóla og foreldra um leiðir til að efla læsi. 

  Í fjórða lagi hefur Menntamálastofnun með höndum framkvæmd ýmissa stjórnsýsluverkefna sem mörg voru áður á hendi mennta- og menningarmálaráðuneytis. Má þar nefna viðurkenningu einkaskóla á framhaldsskólastigi og framhaldsfræðsluaðila, innritun nemenda í framhaldsskóla, undirbúning að staðfestingu námsbrauta- og áfangalýsinga framhaldsskóla m.a. í tengslum við styttingu náms til framhaldsskóla. Einnig hefur stofnunin umsjón með matsnefndum og útgáfu leyfisbréfa fyrir kennara, náms- og starfsráðgjafa og bókasafns- og upplýsingafræðinga og sér um þjónustu fyrir starfsgreinaráð og fagráð gegn einelti.

  Nánari upplýsingar um Menntamálastofnun

 • Hvar get ég skoðað námsefni sem stofnunin gefur út?

  Allt námsefni stofnunarinnar er til sýnis í Bókasafni Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð. Við erum ekki með verslun og þess vegna ekki með neinar bækur til sýnis hjá okkur nema á heimasíðunni www.mms.is

 • Hvar get ég keypt efni sem Menntamálastofnun gefur út?

  Námsefni stofnunarinnar er ekki selt á almennum markaði. Það eru einungis grunnskólar sem fá efni úthlutað samkvæmt lögum. 

 • Nota skólar eingöngu efni sem Menntamálastofnun gefur út?

  Ekki endilega. Viðskipti skólanna við okkur fara fram á grundvelli kvóta sem reiknaður er út með hliðsjón af fjárveitingum og nemendafjölda og aldurssamsetningu hvers skóla. Skólinn metur svo hvaða námsefni er talið brýnast að panta. Skólar geta einnig keypt námsefni frá öðrum útgefendum.

 • Hvað er á læstu svæði kennara?

  Á svæðinu eru aðallega lausnir við ýmsar vinnubækur. 

 • Um hvað snýst PISA rannsóknin?

  PISA er umfangsmikil alþjóðleg rannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði, stærðfræði og þrautalausn. Sá aldur er valinn þar sem hann markar lok almennrar skólagöngu í flestum löndum. PISA er skammstöfun fyrir enska heiti rannsóknarinnar Programme for International Student Assessment og er hún á vegum OECD.

  Nánari upplýsingar um PISA

 • Hvað er YOUTH WIKI?

  YOUTH WIKI er verkefni á vegum EACEA með áherslu á stöðu æskulýðsmála í Evrópu. sem var sett á laggirnar árið 2015.Verkefnið á rætur sínar að rekja til ársins 2013 en vegna aukins fjölda flóttamanna í álfunni var ákveðið að leggja áherslu á málaflokkinn.  Mikilvægt þykir að kortleggja skipulagt æskulýðsstarf í Evrópu og þá möguleika sem eru í boði fyrir þá sem standa utan kerfis.

  Nánari upplýsingar um YOUTH WIKI

 • Hvað eru rafræn próf? Hvenær og hvernig verða þau lögð fyrir?

  Menntamálastofnun hefur hafið innleiðingu rafrænna prófa samkvæmt ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytis. Rafræn próf verða lögð fyrir 4. og 7. bekk haustið 2016 og fyrir 9. og 10. bekk vorið 2017. Með því að gera prófin rafræn gefst kostur á fjölbreyttari leiðum við að prófa markmið skólastarfs, stytta vinnslutíma miðlægra prófa, bjóða upp á sveigjanleika í fyrirlögn, auðvelda stuðningsúrræði fyrir nemendur með sérþarfir og gefa kost á að laga próffyrirlögn að hæfni nemenda.

  Nánar um rafræn próf.