1. Forsíða
  2. Hálf öld liðin frá eldgosi í Heimaey

Hálf öld liðin frá eldgosi í Heimaey

 

Þann 23. janúar árið 1973 hófst eldgos í Vestmannaeyjum.

Gosið hófst öllum að óvörum um tvöleytið að nóttu. Vel tókst að koma öllum 5.300 íbúum eyjarinnar upp á land en svo vel vildi til að nær allir fiskibátar voru í höfn vegna slæms veðurs og gátu því komið íbúunum til bjargar.

Gosið stóð í 155 daga eða til 3. júlí sama ár og hafði það þá eyðilagt stóran hluta af húsum bæjarins. Með hugvitssemi tókst að koma í veg fyrir að hraunrennslið lokaði höfninni en það var gert með því að sprauta sjó á hraunið til að kæla það og stoppa þannig rennslið.

Að þessu tilefni er vert að minna á það námsefni er tengist eldgosum og jarðfræði sem í boði er hjá Menntamálastofnun.  

Gosið er í örbókaflokki sem er hluti af lestrarkennsluefninu Listin að lesa og skrifa sem er ætlað byrjendum í lestri.

Komdu og skoðaðu eldgos er einkum ætlað nemendum á yngsta stigi og fjallar um orsakir eldgosa og jarðskjálfta og viðbrögð við þeim. Einnig er fjallað um uppbyggingu jarðar, jarðskorpufleka og eldgos á Íslandi. Bókin er einnig gefin út á táknmáli og efninu fylgir vefefni með verkefnum sem hægt er að vinna með öllum aldurshópum.

Í hljóðbókinni Kári skoðar land og þjóð kemur gosið í  Heklu fyrir og eldgos útskýrð.  Efnið er ætlað nemendum á yngsta stigi.

Í efninu Ísland hér búum við er meðal annars útskýrð myndun og mótun Íslands og þar með talið eldgos. Á bls. 73 er umfjöllun um Heimaeyjargosið og er efnið ætlað miðstigi.

Í bókinni Heimur í hendi – Á ögurstundu er fjallað um það þrekvirki sem björgunarsveitir unnu þegar Eyjafjallajökull gaus árið 2010 en þeir unnu dögum saman við að aðstoða bændur og aðra íbúa á gossvæðinu (bls. 14). Efnið hentar fyrir miðstig og unglingastig.

Á vefnum Kvistir er að finna stuttar fræðslumyndir í náttúrufræði og samfélagsgreinum. Í jarðfræðimyndunum er farið yfir hringrás bergtegunda, uppbyggingu jarðar, jarðskjálfta, eldgos, eldfjöll, landrekskenninguna, veðrakerfin, mengun, gróðurhúsaáhrif, hringrásir vatns, vinda og kolefna, orkugjafa og fleira. Vefurinn er ætlaður miðstigi og unglingastigi. 

Jarðskjálftar, eldstöðvar og fellingafjöll er fræðslumynd fyrir nemendur á miðstigi og unglingastigi.

Á Jarðfræðivefnum má fræðast um hvað veldur eldgosum og hvað gerist þegar gýs. Fjallað er um ólíkar gerðir eldstöðva, gosbelti á Íslandi og helstu eldstöðvar á landinu. Vakin er athygli á umfjöllun um gosið í Heimaey. Efnið á vefnum er fyrir miðstig og unglingastig. 

Um víða veröld – Jörðin er kennslubók í landafræði einkum ætluð nemendum á unglingastigi. Í einum kafla bókarinnar er rætt um uppbyggingu jarðar, innri og ytri öfl sem móta landið og breyta. Bókin er einnig gefin út sem hljóðbók og henni fylgja kennsluleiðbeiningar.

Í bókinni Árið 1918 er fjallað um eftirminnilegt ár í sögu Íslendinga. Það hófst með miklum frostahörkum og um haustið gaus eldstöðin Katla. Þegar gosinu lauk lagði skæð drepsótt, spænska veikin, stóran hluta íbúa á sunnan og vestanverðu landinu í rúmið og fjölmarga í gröfina. Á árinu náðist afar merkilegur áfangi í sjálfstæðisbaráttu okkar þegar fullveldi þjóðarinnar var samþykkt. Fjallað er um eldgosið í Kötlu á bls. 13–17 í bókinni. Efnið er fyrir unglinga- og framhaldsskólastig.

 

 

skrifað 20. JAN. 2023.