1. Home
  2. Samtal um samræmd könnunarpróf í íslensku

Samtal um samræmd könnunarpróf í íslensku

Menntamálastofnun bauð íslenskukennurum til samráðsfundar um samræmd könnunarpróf þann 13. nóvember. Fundurinn var vel sóttur af kennurum af öllum skólastigum grunnskólans og almenn ánægja var á meðal þeirra í lok fundar.

Sverrir Óskarsson sviðstjóri matssviðs setti fundinn og fór yfir lög og reglugerðir varðandi prófin. Því næst héldu sérfræðingar prófahóps kynningu á prófferlinu, prófakerfinu og fjölluðu um muninn á stöðluðum ytri prófum og innra mati í skólum. Fundargestir voru mjög ánægðir með þessa kynningu og töluðu um að þessar upplýsingar ættu erindi inn í alla skóla landsins.

Eftir kaffihlé var fundargestum skipt upp í þrjá umræðuhópa sem tóku fyrir sinn hvern vinkilinn á prófunum; málskilning, lesskilning og stafsetningu og ritun.

Góðar umræður sköpuðust í öllum hópunum og t.a.m. var mikill samhugur um að stafsetning og ritun þyrftu að koma aftur inn í prófin. Skiptar skoðanir voru á meðal kennara um vægi málfræði og málskilnings í prófinu og hvaða þætti ætti að prófa innan þessa efnisþáttar. Mikil ánægja er með möguleikann á að hlusta á lesskilningstextana í rafræna prófakerfinu og lögðu kennarar áherslu á að hafa fjölbreytta texta til grundvallar lesskilningnum.

Þá spannst umræðan einnig yfir í almenna umræðu um hvert íslenskan væri að stefna og voru áhyggjuraddir á meðal margra fundargesta um þetta.

Endað var á samantekt þar sem aðalatriði hvers umræðuhóps voru lesin upp svo allir fengju að heyra umræður hinna hópanna.

Ánægja var með fundafyrirkomulagið og bent var á að sambærilegan fund þyrfti að halda varðandi samræmt könnunarpróf í stærðfræði.

Menntamálastofnun hefur tekið saman niðurstöður fundarins sem verða sendar til grunnskóla innan skamms. 

                  

skrifað 18. NóV. 2019.