Spurt og svarað um innritun

  • Hvar sæki ég um í framhaldsskóla?

    Sótt er um á www.menntagatt.is og þar smellt á „Sækja um hér“.  Nýnemar sækja þar sem stendur „Veflykill Menntagáttar“. 

  • Hvernig finn ég námsferil minn?

    Inni í umsókn kemur námsferill úr framhaldsskóla fram (eldri nemendur og 10. bekkur ef nemandi hefur tekið framhaldsskólaáfanga). Grunnskólaeinkunnir verða þó ekki sýnilegar nýnemum fyrr en undir lok innritunartímabils í júní. Eldri nemendur sjá grunnskólaeinkunnir þar inni líka. Ef eldri nemendur þurfa námsferil sinn, en eru ekki að sækja um í framhaldsskóla, þurfa þeir að snúa sér til viðkomandi framhaldsskóla og fá staðfestan námsferil þar. 

  • Hvenær fæ ég að vita um skólavist?

    Allir nýnemar fá að vita niðurstöðu innritunar á sama tíma, þ.e. seinnipart júní.  Ekki er nein föst tímasetning fyrir niðurstöðu innritunar eldri nemenda og fá ekki allir svar á sama tíma. 

  • Hvar fylgist ég með hvernig umsóknin mín stendur?

    Hægt er að fylgjast með stöðu umsóknar með því að fara inn í hana á menntagáttinni með sama hætti og þegar sótt var um. Staða umsókna er almennt skilgreind með eftirfarandi hætti: 

    Staða umsókna hjá nýnemum:

    Í vinnslu – umsókn enn í vinnslu

    Samþykkt – skólavist samþykkt

    Hafnað – skólavist hafnað

    Staða umsókna hjá eldri nemendum:

    Í vinnslu – umsókn enn í vinnslu

    Samþykkt – skólavist samþykkt

    Samþykkt í bið – umsókn samþykkt en það á eftir að senda út greiðsluseðil

    Samþykkt í öðrum skóla – skólavist samþykkt í öðrum skóla en sótt var um

    Hafnað – skólavist hafnað

    Hafnað í bið – skólavist hafnað en skóli á eftir að ganga formlega frá neitun

     

  • Er nauðsynlegt að sækja um í forinnritun?

    Nei, það er ekki nauðsynlegt að sækja um í forinnritun. Nemendur geta sótt um hvenær sem er á innritunartímabilunum tveimur. Ef þeir sækja um í forinnritun þurfa þeir ekki að gera neitt frekar í umsókninni ef þeir ætla ekki að breyta henni/hafa ekki skipt um skoðun. Við mælum þó með að umsókn sé ekki skilað inn á síðustu stundu (10. júní hjá nýnemum), þar sem alltaf geta komið upp tæknileg vandamál sem ekki er hægt að bregðast við ef vinnudegi er lokið hjá Menntamálastofnun.

  • Hvað geri ég ef ég vil skipta um skóla?

    Þetta á aðeins við eldri nemendur og þeir sækja þá um á umsóknartímabili eldri nemenda. Við ráðleggjum nemendum þó að segja ekki skólaplássinu sem þeir eru með lausu fyrr en þeir vita hvort þeir fá inni í þeim skóla sem þeir sækja um. Annars geta þeir lent í því að vera án skóla á nýrri önn. 

    Í sumum tilvikum eru skólar ekki búnir að afgreiða umsóknir áður en þarf að greiða skólagjöld í núverandi skóla og mælum við með að þau séu greidd til öryggis. Þau eru þó aldrei endurgreidd. 

  • Hefur það áhrif á núverandi skólavist ef ég sæki um í öðrum skóla?

    Nei, skólinn veit ekki af því ef nemandi sækir um í öðrum skóla, ekki fyrr en ef nemandinn lætur vita eða annar skóli hefur innritað hann. 

  • Nemandi sem býr erlendis en vill fara í framhaldsskóla á Íslandi. Hvernig snýr hann sér í að sækja um?

    Hann gerir það með sama hætti og aðrir. Ef forsjáraðili nýnema hefur íslensk rafræn skilríki eða Íslykil, getur hann farið inn í umsókn á sinni kennitölu og náð í veflykil nemandans. EF fólk hefur aðgang að heimabanka hjá íslenskum banka getur það óskað eftir því á island.is að fá sendan Íslykil í heimabankann og farið inn í umsókn á honum. Það er þó líka hægt að sækja um Íslykil í gegnum sendiráðin erlendis. Ef allt um þrýtur getur nemandinn sent tölvupóst á [email protected] úr eigin tölvupósti og óskað eftir veflyklinum. 

    Þegar umsókn er skilað er gott að hlaða upp nýjustu einkunnum sem nemandinn hefur fengið hjá skólanum sínum úti. Að loknum skilum mælum við með að haft verði samband við skólann/skólana og hann/þeir látinn/látnir vita af umsókninni. Svo þarf að fá upplýsingar um hvaða gögnum sé best að skila svo umsókninni verði ekki sjálfkrafa hafnað af því ekki eru nægar upplýsingar tiltækar. 

  • Hvernig er skráningarferlið á starfsbrautir?

    Umsóknartímabilið hefur verið 1.-28./29. febrúar sl. ár.  Þegar umsóknarferlinu lýkur hefst vinna við að finna öllum nemendunum skólavist. Það getur tekið nokkurn tíma og því ekki hægt að segja til um hvenær þær niðurstöður liggi fyrir og skólarnir geti haft samband við umsækjendur til að bjóða þeim skólavist. Við reynum að klára þessa innritun sem allra fyrst, en þó er rétt að benda á að tímasetningar almennrar innritunar eiga við þessa innritun líka. Viðmið okkar er að allir nýnemar séu komnir með skólapláss þegar niðurstöður almennrar innritunar eru birtar.