Á haustdögum 2015 var undirritaður Þjóðarsáttmáli um læsi og voru það fulltrúar allra 74 sveitarfélaga landsins, ásamt menntamálaráðherra og fulltrúum Heimilis og skóla, sem undirrituðu sáttmálann. Markmið Þjóðarsáttmálans er að efla læsi barna og auka möguleika þeirra til virkrar þátttöku í samfélaginu.
Hér er dæmi um þjóðarsáttmála Eyjafjarðarsveitar og Kópavogsbæjar og dæmi um læsisstefnu og þjóðarsáttmála Sveitarfélagsins Ölfuss.
Þjóðarsáttmálinn er verkefni þar sem margir aðilar snúa bökum saman og leggja grunn að umbótum, þannig að allir nemendur njóti góðs af. Sveitarfélög/skólar, Heimili og skóli, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Menntamálastofnun og fleiri aðilar hafa umsjón með ákveðnum þáttum verkefnisins.
Í Þjóðarsáttmálanum kemur fram að sveitarfélög og skólar muni vinna að ákveðnum þáttum sáttmálans. Með undirritun sinni skuldbundu sveitarfélög sig til að setja markvissa læsisstefnu, ákveða lágmarksviðmið um færni í lestri, mæla reglubundið lestrarfærni, beita snemmtækri íhlutun í leik- og grunnskólum, bregðast við vísbendingum um lestrarvanda, nýta sérfræðiþjónustu sína til ráðgjafar, greiningar og eftirfylgni, veita nemendum af erlendum uppruna sérstakan stuðning og leggja áherslu á samvinnu við foreldra til að ná markmiðum sáttmálans.
Í Þjóðarsáttmálanum er tilgreint að hlutverk Menntamálastofnunar sé að veita sveitarfélögum stuðning og ráðgjöf, láta skólum í té skimunarpróf, aðstoða kennara í sveitarfélögum við að greina niðurstöður mælinga og ákveða aðgerðir í kjölfarið, reka virka upplýsingagátt þar sem þekkingu um læsi er miðlað til skólasamfélagsins og efna til árlegrar námsstefnu um læsi.
Við undirbúningsvinnu að Þjóðarsáttmálanum var höfð að leiðarljósi skilgreining á læsi frá The International Association for the Evaluation of Educational Achievement (IEA): „Læsi vísar til hæfninnar til að skilja og nota ritmál tungunnar í samræmi við kröfur samfélagsins og/eða óskir einstaklings. Í því felst að börn og ungmenni geti tileinkað sér ýmiss konar texta og lagt í hann merkingu. Þau lesi til að læra, til að taka þátt í samfélagi lesenda í skóla og daglegu lífi og þeir lesi sér til ánægju.“
Áherslum samkvæmt Þjóðarsáttmála hefur miðað vel og hafa verkþættir ýmist verið á áætlun eða á undan áætlun. Hér er listi yfir afurðir verkefnisins, sem eru fjölbreyttar. Menntamálastofnun hefur lokið flestum þeirra verkþátta sem henni var falið samkvæmt Þjóðarsáttmálanum.
Hér fyrir neðan er listi yfir ýmis gögn sem tengjast Þjóðarsáttmálanum, t.d. innihald sáttmálans, upplýsingar um verkefni, verkáætlun, fjárhagsupplýsingar, framvinduskýrslur og fleira.
Hér gefur að líta áherslur og innihald Þjóðarsáttmálans, sem öll sveitafélög á Íslandi skrifuðu undir haustið 2015.
Hér er Aðgerðaáætlun um eflingu læsis, sem gerð var af aðgerðahóp um eflingu læsis á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis 2015. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í kjölfar Hvítbókar um umbætur í menntun.
Vorið 2016 var gerð framvinduskýrsla og verkefnastaðan endurmetin.
Stýrihópsfundir eru haldnir reglulega og framgangur verkefnisins hefur verið metin reglulega. Þann 8. september 2016 var haldinn stýrihópsfundur.
Í júlí 2107 var fyrsta áfanga verkefnisins lokið og þá var verkefniságrip uppfært. Í kjölfar þess var haldinn fundur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem farið var yfir stöðu mála og framgang.
Í byrjun árs 2018 var ákveðið að leggja áherslu á þætti sem stuðlað gætu að sjálfbærni verkefnisins. Í febrúar 2018 var endurmatsfundur um annan áfanga verkefnisins.
Í apríl 2018 var haldinn framhaldsstýrihópsfundur. Í kjölfar hans var fundað um framgang verkþátta það árið og fram á mitt ár 2019.
29. ágúst 2019 var fundað um stöðuna á verkþáttum læsisverkefnisins, áherslur 2019-´20.
Reglulega hafa kostnaðarþættir verkefnisins verið yfirfarnir, gerð ný stefnumótun og úttekt. Hér er að finna upplýsingar um kostnaðarþætti læsisverkefnisins samkvæmt stöðuskýrslu frá febrúar 2018. Hér gefur enn fremur að líta svar við fyrirspurn frá 7. febrúar 2018 um fjárreiður og framgang Þjóðarsáttmála um læsi.
Í janúar var gerð matsáætlun fyrir læsisverkefnið í heild sinni. Gert var ráð fyrir að um mitt ár 2020 muni liggja fyrir mat á verkefninu í heild og er þeirri vinnu við matið lokið.
Hér er að finna lokaskýrslu um innra mat á verkefninu.
Rétt þykir að nefna að Þjóðarsáttmáli um læsi kom til framkvæmdar á árinu 2016. Þeir nemendur sem tóku þátt í PISA 2018 voru að koma á unglingastig þegar sáttmálinn komst í gagnið og því er vandasamt að meta árangur aðgerða Þjóðarsáttmálans með tilliti til niðurstaðna PISA 2018, enda er skýrt að árangur menntaumbóta er langhlaup. Þannig er ljóst að aðgerðir skóla, sveitarfélaga, Heimilis og skóla, Menntamálastofnunar og annarra sem stóðu að sáttmálunum komust ekki í fullan gang daginn sem var skrifað undir sáttmálann.